Erlent

Milljarðar dala í skattaskjólum

ingibjörg bára stefánsdóttir skrifar
Lúxemborg er sögð eitt af mörgum skattaskjólum Walmart.
Lúxemborg er sögð eitt af mörgum skattaskjólum Walmart.
Bandaríska verslanakeðjan Walmart hefur komið að minnsta kosti 76 milljörðum dollara fyrir í 78 dótturfyrirtækjum í 15 skattaskjólum. Á viðskiptasíðu Dagens Nyheter er vitnað í skýrslu samtakanna Americans for Tax Fairness, sem hafa kortlagt meint net dótturfyrirtækjanna og skattaskjólanna.

Walmart rekur nú 6.300 verslanir í 27 löndum en á einnig dótturfyrirtæki í fjölda landa án þess að reka þar verslanir, að því er greint er frá í skýrslunni sem kom út í þessari viku.

Þar segir jafnframt að í ársskýrslum Walmart sé ekki greint frá félögum í eigu verslanakeðjunnar í Lúxemborg, Hollandi, Sviss, Írlandi, Bresku-Jómfrúreyjum, Cayman-eyjum, Panama, Barbados og Gíbraltar, en félögin eru sögð vera nokkrir tugir. Talsmaður Walmart, Randy Hargrove, segir skýrsluna ófullkomna og gerða til að villa um fyrir mönnum.

Samtökin Americans for Tax Fairness eru regnhlífarsamtök 425 félaga sem vilja skattaumbætur í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×