Viðskipti erlent

Óttast að gert verði áhlaup á gríska banka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leiðtogar heilsast. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands.
Leiðtogar heilsast. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hitti Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Rússlandi útiloka ekki að þau muni koma Grikkjum til bjargar í fjárhagsvandræðum þeirra.

Í yfirlýsingu sem skrifstofa Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, sendi frá sér á föstudag segir að Rússar íhugi lánveitingar til Grikklands. Þar var þó tekið fram að Grikkir hefðu ekki óskað eftir aðstoð.

BBC-fréttastofan segir að áhyggjur af starfsemi grískra banka fari vaxandi en innlánseigendur hafa tekið út milljarða evra af reikningum sínum í þessari viku. Talið er að upphæðin nemi allt að 4 milljörðum evra. Ástæðan er sú að stjórnvöld í Grikklandi hafa frest fram að mánaðamótum til þess að ná samningum við Evrópusambandið um skuldir Grikklands.

Úttektir af reikningum aukast frá degi til dags eftir því sem nær dregur mánaðamótum. Leiðtogar evruríkjanna munu koma saman á neyðarfundi á mánudaginn til að ræða stöðuna, en fundur fjármálaráðherra ríkja á evrusvæðinu á fimmtudaginn skilaði engum árangri.

Seðlabanki Grikklands hefur sagt að ef samningar takast ekki fyrir mánaðamót megi búast við því að Grikkir þurfi að yfirgefa evrusvæðið og í framhaldinu Evrópusambandið. 


Tengdar fréttir

Klukkan tifar á skuldavanda Grikkja

Banka­stjóri stærsta banka lands­ins, seg­ir að það yrði "brjálæði“ ef grísk stjórnvöld komast ekki að samkomulagi um skuldavanda landsins fyrir mánaðamót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×