Erlent

Líklegast áður óþekktur uppljóstrari að verki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
François Hollande er ekki sáttur við hátterni Bandaríkjamanna sem njósnað hafa um síðustu þrjá forseta Frakklands.
François Hollande er ekki sáttur við hátterni Bandaríkjamanna sem njósnað hafa um síðustu þrjá forseta Frakklands. nordicphotos/afp
Öryggismálastofnanir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum rannsaka nú í sameiningu hvort áður óþekktur uppljóstrari hafi orðið Wikileaks úti um sönnunargögn um að Bandaríkin hafi njósnað um síðustu þrjá Frakklandsforseta. Ekki er talið að Edward Snowden, uppljóstrarinn sem lak gögnum um njósnir Bandaríkjanna á Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, hafi verið að verki.

Nýju gögnin urðu til þess að François Hollande, núverandi forseti Frakklands, boðaði varnarmálaráð landsins til fundar í gær. Wikileaks birti gögnin á heimasíðu sinni á þriðjudag.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, talaði við Hollande í síma í gær. Þar fullvissaði hann Hollande um að samskipti hans væru ekki hleruð á þessari stundu og engin áform væru um að hlera hann í framtíðinni. Obama neitaði því ekki í samtalinu að hleranir hefðu átt sér stað í fyrri tíð.

Hleranirnar sem um ræðir eiga að hafa átt sér stað á árunum 2006 til 2012. Í forsetatíð bæði George W. Bush og Barack Obama. Frakklandsforsetarnir sem hleraðir voru á tímabilinu eru Jacques Chirac, Nicolas Sarkozy og François Hollande.

Hollande sagði í gær að Frakkar myndu ekki líða aðgerðir sem ógna þjóðaröryggi landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×