Lífið

Þetta er ekkert hættulegt

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Vísir/Ernir
„Ég hef undanfarin ár glímt við andlega erfiðleika og vandamál og hef því ekki stundað vinnu. Ég hef reynt að stunda fjarnám, og það hefur gengið misvel. Undanfarna fjóra mánuði hef ég verið í svokallaðri Listasmiðju í Hlutverkasetri og þetta er afraksturinn, sem við opnum nú hér um helgina í Gerðubergi,“ segir Þórey Svana Þórisdóttir en hún er ein tuttugu og fjögurra listamanna sem unnið hafa verk á sýninguna Sanna ásjónu sem opnaði í Gerðubergi í gær og stendur til 28. ágúst næstkomandi.

Þórey segir listasmiðjuna hafa gjörbreytt sínum aðstæðum.

„Ég er búin að vera í fjóra mánuði í Hlutverkasetri. Ég upplifi miklar breytingar á lífi mínu. Félagsleg einangrun, sem hér áður var algjör í mínu tilviki, er ekki lengur og svo hef ég fengið þetta tækifæri til þess að læra að nýta sköpunarkraft minn í listinni. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á listum, en ég hef átt erfitt með að koma mér af stað og þora. En starf Hlutverkaseturs snýst að miklu leyti um þetta – að kenna manni að stíga skrefið. Það er ekkert hættulegt.“

Á sýningunni eru fjölbreytt myndverk eftir tuttugu og fjóra listamenn, eins og áður segir, unnin í Hlutverkasetri. Við opnunina flutti leiklistarhópur Hlutverkaseturs gjörning. Stjórnandi þess hóps er Edna Lupita.

Myndlistarkennararnir Anna Henriksdóttir og Svafa Björg Einarsdóttir hafa leitt vinnustofurnar síðastliðin fimm ár. Þær hafa það að markmiði að ýta undir listræna hæfileika með markvissri hvatningu og er sýningin afrakstur þannig verkefnis.

„Ég ætla að halda áfram að mæta í Hlutverkasetur og halda áfram í listinni. Svo verður bara tíminn að leiða í ljós hvert stefnan verður tekin,“ segir Þórey að lokum og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×