Erlent

Margir vilja neita samkynja pörum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna um að samkynja pör ættu að fá að giftast í öllum fylkjum er umdeildur í Texas.
Úrskurður hæstaréttar Bandaríkjanna um að samkynja pör ættu að fá að giftast í öllum fylkjum er umdeildur í Texas. vísir/epa
Dómsmálaráðherra Texas, Ken Paxton, upplýsti opinbera starfsmenn fylkisins í gær um að ef starfsmennirnir neituðu samkynja pörum um hjónavígslu á grundvelli trúar sinnar myndi skrifstofa hans verða þeim úti um lögmann þeim til varnar að kostnaðarlausu.

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að bann við hjónavígslum samkynja para stangaðist á við stjórnarskrá ríkisins og urðu þær hjónavígslur með þeim úrskurði löglegar í öllum fylkjum Bandaríkjanna.

Paxton sagði að samkvæmt fyrsta viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem snýr meðal annars að trúfrelsi, væri í lagi að neita samkynja pörum um hjónavígslu. Bætti hann því við að þeir starfsmenn sem það gerðu ættu hættu á lögsóknum og sektum.

„Fjöldi lögfræðinga stendur þó á hliðarlínunni, tilbúinn til að aðstoða þá sem verja vilja trú sína, í mörgum tilfellum vilja þeir aðstoða skjólstæðingnum að kostnaðarlausu. Ég mun gera allt sem í valdi mínu stendur til að vera rödd þeirra sem standa vilja vörð um réttindi sín,“ sagði Paxton.

Sakaði hann þá hæstarétt Bandaríkjanna um að hundsa anda stjórnarskrárinnar til að búa til réttindi sem væru ekki til. Vísar hann þar til úrskurðar hæstaréttar sem segir það rétt hvers og eins að fá að giftast.

Ríkisstjóri Texas úr Repúblikanaflokknum, Greg Abbott, tók undir orð Paxtons. „Í ljósi niðurstöðu hæstaréttar mun loforði laganna um trúfrelsi einstaklinga verða ógnað af þeim sem vilja þagga niður í starfsmönnum sem vilja ekki, samvisku sinnar vegna, taka þátt í hjónavígslum sem stangast á við trú þeirra.

Ríkisstjórinn bætti við: „Sem opinberir embættismenn ber okkur stjórnarskrárbundin skylda til að verja trúfrelsi og réttindi allra íbúa Texas.“

Fyrir helgi sagði talsmaður Bobby Jindal, ríkisstjóra Louisiana-fylkis og forsetaframbjóðendaefni repúblikana, að fylkið myndi neita því að vígja samkynja hjón þar til fylkið yrði neytt til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×