Lífið

Besta útgáfan af sjálfum sér á ramadan

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Mikael hefur ekki fastað í heilan mánuð en það er markmikið eftir nokkur ár.
Mikael hefur ekki fastað í heilan mánuð en það er markmikið eftir nokkur ár. vísir/Valli
Ramadan er nú í fullum gangi og það eru margir sem halda upp á mánuðinn enda er hann heilagur.

Íslam er ein algengasta og dreifðasta trú heimsins og því geta hefðir í ramadan-mánuðinum verið misjafnar. Fréttablaðið náði tali af tveimur ungum Íslendingum sem taka þátt í ramadan.

Nazima Kristín Tamimi er múslimi en hún er stödd í Palestínu að læra arabísku og heimsækja fjölskyldu. Hún er nýútskrifuð úr menntaskóla á Íslandi.

„Það að vera að fasta í Palestínu en ekki á Íslandi hefur sína kosti og galla. Helsti kosturinn er auðvitað að dagurinn er miklu styttri hér heldur en heima. Í Palestínu er fastað í um 16 tíma en það eru rúmlega 18 tímar á Íslandi. Annar kostur við að vera í Palestínu er að það eru allir aðrir að fasta og því er sýndur meiri skilningur. Veitingastaðir eru lokaðir á daginn og opna rétt fyrir kvöldmat og þá er oft svakaleg veisla. Gallinn við að vera hérna úti er hitinn. Það er erfitt að ætla að fara niður í bæ og ganga um í 30 stiga hita án þess að vera búinn að næra sig,“ segir Nazima.

Í grófum dráttum þá er ramadan sá mánuður þegar Mohammed spámaður á að hafa fengið Kóraninn frá guði. Fastað er frá sólarupprás til sólseturs. Það er ekki aðeins matur og vatn sem fólk neitar sér um heldur einnig reykingar, kynlíf, ljótt umtal, slúður og fleira. Mánuðurinn á að vera tækifæri til þess að vera besta útgáfan af sjálfum sér.“

Mikael Ómar Lakhlifi tekur nokkra daga í viku þar sem hann fastar. Hann er aðeins 15 ára gamall en hann ætlar sér þó að fasta í heilan mánuð eftir nokkur ár.

„Ég aðhyllist hvorki íslam né kristna trú. Pabbi minn hefur fastað í 30 ár og þetta er eitthvað sem mig langar að gera. Svo er líka gott fyrir líkama og sál að taka þetta inn á milli. Þetta er ekki auðvelt og ég verð mjög þreyttur þegar ég er að fasta. En það er alltaf þess virði á kvöldin þegar við fáum að borða. Það er alltaf fullt af mat á boðstólum og maður borðar á sig gat. Við borðum klukkan átta þar sem við fylgjum klukkunni í Marokkó, en pabbi minn er þaðan.“

Nazima Kristín Tamimi er múslimi en hún er stödd í Palestínu að læra arabísku og heimsækja fjölskyldu.
Mikael og Nazima eru bæði sammála um að það að byrja að fasta geti verið mjög erfitt. „Fyrsta eina og hálfa vikan er langerfiðust. Eftir hana fer þetta að hætta að vera kvöl og pína og verður meira eins og skylda sem þig langar til að framfylgja. Það er enginn sem neyðir mann til þess að taka þátt í ramadan,“ segir Nazima. 

„Síðustu tíu dagarnir í ramadan eru heilagastir og því fylgir tilheyrandi veisla. Í mörgum löndum safnast fólk saman á götum úti, spilar tónlist og fagnar því að mánuðurinn sé að klárast og gleðst yfir að hafa náð svona langt. 

Í lok ramadan er aðalveislan og fólk kaupir gjafir, kaupir sér ný föt fyrir síðasta daginn, heldur enn stærra matarboð en áður og býður fullt af fólki. Í heildina er ramadan mjög fallegur mánuður sem ég hvet alla til að taka þátt í einhvern daginn.“

Þorsteinn Friðriksson Erfitt að útskýra vinsældir en Ramadan gæti verið ein af ástæðunum. Vísir/Vilhelm
Quiz Up vinsælla vegna ramadan?

Mikil uppsveifla hefur verið hjá Quiz Up í Frakklandi en það er talið vera vegna ramadan. Samkvæmt Þorsteini Friðrikssyni, forstjóra Plain Vanilla, er hægt að rekja upphafið á vinsældunum þar í landi til þessa heilaga mánaðar.

„Við erum ekki með neina eina útskýringu, enda oft erfitt að útskýra af hverju nákvæmlega hlutir verða að æði á tilgreindum mörkuðum. Við tókum hins vegar eftir því við upphaf hinna miklu vinsælda í Frakklandi að þá virtist vera mikið um franska notendur af arabískum uppruna sem töluðu á spjallborðum leiksins talsvert um ramadan og hversu gott það væri að hafa QuizUp við höndina til þess að láta ramadan líða fyrr,“ segir Þorsteinn.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×