Lífið

Búið spil hjá Kourtney og Scott?

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Scott og Kourtney hafa verið saman frá árinu 2006 og eiga saman þrjú börn.
Scott og Kourtney hafa verið saman frá árinu 2006 og eiga saman þrjú börn. Vísir/Getty
Erlendir slúðurmiðlar keppast nú við að segja frá því að raunveruleikaþáttastjarnan Kourtney Kardashian og Scott Disick séu hætt saman, en þau hafa verið saman í rúm níu ár og eiga saman þrjú börn.

Kourtney og systur hennar, Kim, Khloé, Kendall og Kylie, þekkja flestir úr þáttunum Keeping up with the Kardashians þar sem hún og fjölskylda hennar hleypa áhorfendum inn í líf sitt. Þátturinn hefur verið sýndur á sjónvarpsstöðinni E! frá árinu 2007 og hefur Kourtney einnig tekið þátt í fleiri raunveruleikaþáttum ásamt systrum sínum. Hún hefur, í samvinnu við Kim og Khloé, hannað fatnað, ilmvötn og gefið út bók. Kourtney er elst þeirra systra, fædd árið 1979.

Samband Scotts og Kourtney hefur komið talsvert við sögu í þáttunum. Þau byrjuðu að hittast árið 2006 og samkvæmt þáttunum og erlendum miðlum hefur samband þeirra verið stormasamt á köflum. Scott er sagður mikið partídýr sem sagt er hafa sett strik í reikninginn og hefur hann farið í áfengismeðferðir sem virðast ekki hafa skilað tilætluðum árangri og sagt er að þau hafi lengi sofið hvort í sínu herberginu.

Árið 2009 eiga þau að hafa hætt saman en stuttu eftir það komst Kourtney að því að hún var ólétt og tóku þau aftur saman og eignuðust sitt fyrsta barn, soninn Mason Dash Disick þann 14. desember.

Árið 2012 eignaðist parið dótturina Penelope Scotland Disick, sem er fædd þann 8. júlí og eftir það virtist sambandið blómstra, að því er séð varð í raunveruleikaþættinum og á Instagram-síðum þeirra og í desember á síðasta ári, á afmælisdegi Masons, eignaðist parið sitt þriðja barn, Reign Aston Disick.

Kourtney fékk sig svo fullsadda þegar að myndir frá því í síðustu viku af Scott og stílistanum Chloe Bartoli, sem sögð er fyrrverandi kærasta Scotts, birtust í erlendum miðlum þar sem þau sjást láta vel að hvort öðru í Mónakó og á Kourtney að hafa slitið sambandinu fyrir fullt og allt um helgina.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem sögusagnir fara á kreik um að Scott hafi verið henni ótrúr, en einnig er talið að mikil drykkja hans og partístand hafi haft áhrif á ákvörðunina, en hann hefur verið iðinn við að fá sér í glas á síðustu misserum og aðstandendur hans og vinir sagðir hafa áhyggjur af honum.

Það var vefmiðillinn E! sem sagði fyrst frá sambandsslitunum en sjónvarpsþáttur fjölskyldunnar hefur verið sýndur á samnefndri sjónvarpsstöð frá upphafi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×