Lífið

Hlúa að grasrótinni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Völlurinn er fjölsóttur og vinsæll enda léttur fyrir fótinn og þægilegur fyrir alla aldurshópa,“ segir Guðmundur.
„Völlurinn er fjölsóttur og vinsæll enda léttur fyrir fótinn og þægilegur fyrir alla aldurshópa,“ segir Guðmundur. Mynd/Sigurður Elvar
„Þetta er eins og stórt fyrirtæki. Ég hugsa um félagsmennina sem starfsmenn sem ég þarf bæði að stýra og þjónusta, einkum þegar mikið stendur til eins og nú þegar Íslandsmótið í golfi er fram undan,“ segir Guðmundur Sigvaldason, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis á Akranesi.

Golfklúbburinn Leynir var stofnaður 1965. Stofnfélagar voru 22 en nú eru um 400 manns í klúbbnum og endurnýjun stöðug, að sögn Guðmundar. „Við erum alltaf að reyna að hlúa að grasrótinni í víðum skilningi þess orðs.“

Leynir hefur alið af sér góða kylfinga á landsvísu. Hvað þekktastir eru Birgir Leifur Hafþórsson og Valdís Þóra Jónsdóttir.

„Margir eldri kylfingar klúbbsins hafa einnig orðið Íslandsmeistarar, til dæmis formaðurinn, Þórður Emil Ólafsson,“ lýsir Guðmundur og ber líka lof á starfsmenn klúbbsins. Þá segir hann staðsetningu vallarins hafa sitt að segja fyrir framgang íþróttarinnar á Akranesi.

„Garðavöllur er í útjaðri bæjarins og í göngufæri fyrir Akurnesinga. Hann er fjölsóttur enda léttur fyrir fótinn og þægilegur fyrir alla aldurshópa. Þó ekki auðveldur þegar út í alvöruna er komið heldur ögrandi keppnisvöllur sem getur refsað.“

Leynir heldur um 40 mót á sumri og auk þess stórmót árlega fyrir Golfsambandið. Nú hefst Íslandsmótið þar 23. júlí og Guðmundur á von á fjölda fólks.

„Það er mikil tilhlökkun hjá okkur að halda þetta mót sem hefur verið í undirbúningi í á þriðja ár. Við ætlum að gera upplifun keppenda og gesta sem besta.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×