Lífið

Tímamót að geta ferðast án mengunar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Árni Sigurbjarnarson, eigandi Norðusiglingar.
Árni Sigurbjarnarson, eigandi Norðusiglingar.
Norðursigling á Húsavík tók fyrsta rafknúna hvalaskoðunarbátinn á Íslandi í notkun í gær. Báturinn er ekki einungis sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi heldur er hann fyrsti báturinn í heiminum sem hleður rafgeyma sína þegar siglt er undir seglum og notar síðan rafmagnið til að sigla áfram. Báturinn er því laus við notkun olíu.

„Okkur finnst algjör tímamót í náttúruskoðun að geta skoðað náttúruna og ferðast án þess að menga og án þess að áreita náttúruna. Svo eykur þetta upplifun farþeganna, sem eru vanir að ferðast undir vélardrunum stórra skipa,“ segir Árni Sigurbjarnarson, eigandi Norðursiglingar.

Öll skip Norðursiglingar eru eikarskip, átta talsins. Fjögur þeirra eru seglskip. Norðursigling er stofnuð utan um endurbyggingu gamalla íslenskra eikarskipa og miðar fyrirtækið að verndun umhverfisins. Auk skipanna er allur bílafloti fyrirtækisins rafrænn.

Nýi búnaðurinn í skipinu nýtir bremsuafl í skrúfunni til að framleiða rafmagn með rafal inn á rafgeyma skipsins. Í skipinu eru fjórir rafgeymar sem hver vegur yfir sex hundruð kílógrömm. Öll tæknin er sérsmíðuð og sérhönnuð fyrir verkefnið í samstarfi við fyrirtæki á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu.

„Þetta verkefni hófst árið 2012. Á lokasprettinum höfum við verið að vinna með geysilega öflugum hópi. Nú þegar við erum byrjuð að prófa búnaðinn virðist hann uppfylla allar okkar væntingar og kannski gott betur en það,“ segir Árni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók búnaðinn formlega í notkun í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×