Lífið

Alltaf heillast af fólki og sögum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Harpa Dís segir margt forvitnilegt leynast í bæjarfélaginu.
Harpa Dís segir margt forvitnilegt leynast í bæjarfélaginu. Vísir/Valli
Harpa Dís Hákonardóttir hefur í sumar unnið að myndlistarseríunni Kópavogsbúinn sem hefur verið á faraldsfæti um bæjarfélagið í sumar.

„Ég hef alltaf heillast af fólki og sögum og hef sjálf skrifað heilmikið. Hef skrifað tvær ævintýrabækur og af því að Kópavogur er sextíu ára í ár þá langaði mig að gera eitthvað úr því,“ segir Harpa Dís sem er fædd og uppalin í bæjarfélaginu.

Verkin undirbjó hún með vettvangsferðum víðs vegar um bæinn, skissa og taka myndir af því sem fyrir augu bar. „Margir segja að það séu bara hús í Kópavogi og ekkert annað en þar leynist rosalega margt og það er gaman að geta skoða það.“

Harpa Dís segir myndlistaráhugann alltaf hafa blundað í sér en hún hafi fram til þessa ekki haft mikinn tíma til þess að sinna honum. Hún sló til eftir að hafa farið í lýðháskóla í Svíþjóð og mun í haust hefja nám í myndlist í listaskóla í Stokkhólmi.

Harpa Dís gaf út tvær bækur þegar hún var 16 og 18 ára gömul, Galdrasteinninn og Fangana í trénu. Hún fékk inngöngu í Rithöfundasamband Íslands þegar hún var 19 ára gömul og er yngsti höfundur sem fengið hefur inngöngu í sambandið og er draumurinn að geta sameinað listgreinarnar tvær. „Mig langar svolítið að sameina þetta tvennt, það eru alveg heilmargir listamenn sem eru bæði myndlistarmenn og rithöfundar og ég vonast til þess að gera það í framtíðinni.“

Sýninguna er hægt að sjá í Smáralind en þar mun hún standa þar til á föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×