Lífið

KEXPort í beinni: Ókeypis tónleikar undir berum himni

Það var góð stemning á KEXPort í fyrra.
Það var góð stemning á KEXPort í fyrra.
Benedikt Reynisson, tónlistarstjóri Kex, er einn af þeim sem hefur veg og vanda af skipulagningu KEXPort. Ernir
Tólf klukkutíma maraþon tónleikar, KEXPort, verða haldnir úti í portinu fyrir aftan Kex Hostel í dag og hefjast þeir klukkan tólf.

„Þetta verða fyrst og fremst dúndur tónleikar. Það verða hér tólf bönd og er þau mjög fjölbreytt, það verða nokkur stór nöfn eins og Sóley, Hljómsveitin Valdimar, Agent Fresco, Ojbarasta og Emmsjé Gauti. Svo verða nokkur minni inn á milli líka, til dæmis Gísli Pálmi, Rökkurró, Kælan mikla, og Teitur Magnússon. Þannig að þetta eru upprennandi og ráðsettari bönd í bland,“ segir Benedikt Reynisson, tónlistarstjóri á Kexi.

Allt það besta í beinni

KEXPort er haldið í ár í fjórða skiptið en tónleikarnir komu til vegna samstarfs Kex Hostels og bandarísku útvarpsstöðvarinnar KEXP.

„KEXP hefur sent beint út frá tónleikum á Kexi Hosteli frá því í október 2011 eða nokkrum mánuðum eftir að staðurinn var opnaður. Útsendingarnar vöktu athygli á Kexi og vildu aðstandendur staðarins þakka stöðinni fyrir og ákváðu því að halda tónleikana KEXPort til heiðurs KEXP. Stöðin hefur síðan sent beint út frá tónleikum sem hér hafa verið haldnir, allt það besta úr íslensku tónlistarflórunni, meðal annars frá Iceland Airwaves og ætla þeir að gera það aftur í ár.“

Tónleikunum verður streymt í beinni á netinu þannig að þeir sem komast ekki til að fá stemninguna beint í æð geta fylgst með á netinu. „Við eigum von á að færri komist að en vilja í dag en við bjóðum að sjálfsögðu alla velkomna að koma með góða skapið með sér. Það er ókeypis inn og yfir þrjú þúsund manns búnir að tilkynna komu sína á Facebook.

Á KEXPort í fyrra voru mest um fimmtán hundruð manns hér í portinu í einu. Það verður góð stemning í allan dag og veðrið lítur út fyrir að verða okkur hagstætt þannig að þetta verða án efa flottustu tónleikarnir í Reykjavík í dag,“ segir Benedikt og brosir.

Umfangsmikil framkvæmd

Hann segir svona maraþon tónleika vera umfangsmikla í framkvæmd og marga sem koma að þeim.

„Undirbúningurinn fyrir þessa tónleika tók um tvo mánuði í heild. Það er margt og margir sem þurfa að stilla sig saman, tónlistarmenn, hljóðmenn, myndatökumenn, tæknimenn og fleiri því sent verður beint út í Seattle í gegnum KEXP.

Stöðin hefur, eins og áður segir, unnið flott starf fyrir íslenska tónlist og kynnt hana vel í Bandaríkjunum. Hún er með eigin Youtube-rás sem er með yfir sexhundruð þúsund áskrifendur þannig að þetta er gott tækifæri fyrir íslenskar hljómsveitir til að vekja athygli á sér.“

Fylgjast má með KEXPorti í beinni í hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×