Körfubolti

Líður ekki dagur sem ég hugsa ekki um EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hlynur Bæringsson einbeittur á æfingunni í gær.
Hlynur Bæringsson einbeittur á æfingunni í gær. vísir/Andri Marinó
Það var létt yfir landsliðsmönnunum í körfubolta á fyrstu formlegu æfingu liðsins fyrir Evrópumótið í gær, en landsliðið kom saman til æfinga í Ásgarði í Garðabæ. Alls er 21 leikmaður skráður í æfingahópinn en á endanum verða aðeins tólf teknir með.

Kristófer Acox, sem gaf út fyrr í mánuðinum að hann yrði ekki með á EM vegna anna í Furman-háskólanum, er í hópnum sem og Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson. Elvar verður þó ekki með á EM, en hann gefur ekki kost á sér.

„Elvar valdi skólann fram yfir,“ sagði Craig Pedersen landsliðsþjálfari við Fréttablaðið í gær. „Við erum enn í sambandi við Kristófer og erum að reyna að finna lausn á máli hans. Eftir því sem ég heyri vill skólinn ekki að hann missi af þremur vikum.“

Jón Arnór Stefánsson, fremsti körfuboltamaður þjóðarinnar, var mættur á æfinguna en þó bara í gallabuxum með málningarslettum á. „Ég er aðeins að hjálpa Eggerti bróður að mála,“ sagði hann við Fréttablaðið og brosti.

„Ég fæ aðeins lengra frí,“ sagði hann um ástæðu þess að hann tók ekki þátt í æfingunni. „Ég er í líkamlegu ástandi til að æfa en þetta er meira hausinn sem þarf smá frí eftir langt tímabil á Spáni og mikið af leikjum. Ég kem inn í þetta eftir nokkra daga.“

Hlynur Bæringsson, fyrirliði liðsins, var stóískur að vanda þegar Fréttablaðið spurði hann hvort þessi æfing gerði allt meira raunverulegra.

„Nei, í raun og veru ekki. Þetta er allt enn frekar óraunverulegt en engu að síður mjög spennandi. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað mikið um. Svona án gríns líður ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um EM,“ sagði Hlynur.

Æfingahópinn í heild sinni má sjá á Vísi, en liðið leikur tvo æfingaleiki gegn Hollandi 7. og 9. ágúst. Þann fyrri í Þorlákshöfn og þann síðari í Laugardalshöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×