Erlent

Kjörsókn í N-Kóreu var nærri 100 prósent

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Flokkur Kim Jong-Un fékk öll sveitarstjórnarsæti í nýyfirstöðnum kosningum, enda eini flokkurinn á lista.
Flokkur Kim Jong-Un fékk öll sveitarstjórnarsæti í nýyfirstöðnum kosningum, enda eini flokkurinn á lista. nordicphotos/afp
Kosningaþátttaka var 99,97 prósent í sveitarstjórnarkosningum í Norður-Kóreu á sunnudag samkvæmt tölum ríkisfjölmiðils landsins. Verkamannaflokkurinn, flokkur Kim Jong-Un leiðtoga landsins, vann stórsigur í kosningunum, enda eini flokkurinn á lista. Kim Jong-Un er kjörinn fulltrúi á norðurkóreska þinginu, rétt eins og aðrir fulltrúar, en hann hlaut hundrað prósent atkvæða í sínu kjördæmi í fyrra.

Kjósendur voru ekki beðnir um að merkja við flokkinn á kjörseðlinum heldur átti að skila kjörseðli í kjörkassa til að sýna stuðning sinn við frambjóðandann, en einn frambjóðandi er í hverju kjördæmi.

Algengt er að kjörsókn í Norður-Kóreu sé nærri 100 prósent sökum þess að allir Norður-Kóreumenn sem náð hafa sautján ára aldri eru skyldugir til að kjósa. Þeir sem ekki kjósa eiga yfir höfði sér landráðaákæru.

Fulltrúarnir sem ná kjöri munu sitja í embætti í fjögur ár en stjórnmálafræðingar telja áhrif þeirra lítil sem engin. Hlutverk þeirra er sagt vera að framfylgja ákvörðunum ríkisstjórnarinnar.

Breska blaðið Independent áætlar að þeir 13.160 Norður-Kóreumenn, 0,03 prósent, sem ekki kusu, verði því ákærðir og líklegast teknir af lífi fyrir það eitt að kjósa ekki í kosningunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×