Skoðun

Enn af verðofbeldi

Þórólfur Matthíasson skrifar
Samkvæmt auglýsingu frá Verðlagsnefnd búvara dagsettri 17. júlí 2015 hækkaði verð á mjólkurvarningi um 3,6%. Undantekningin er verð á smjöri sem var hækkað um 12% enda í miklu uppáhaldi hjá neytendum nú um stundir! Um þá hækkun og aðrar hækkanir sem Verðlagsnefndin ákvað 17/7 má hafa mörg orð. En hér skal staldrað við ákvörðun nefndarinnar um heildsöluverð gerilsneyddrar mjólkur í lausu máli annars vegar (105 krónur á lítra) og verði á mjólk í eins lítra fernu hins vegar (121 króna á lítra). Þ.e.a.s. það virðist mat nefndarinnar að kostnaður við pökkun hvers lítra sé 16 krónur.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem mér hefur tekist að afla mér kostar pappírsfernan sjálf komin í átöppunarsal á bilinu 16 til 18 krónur. Þá á eftir að koma mjólkinni í fernuna. Til þess að gera það þarf mikið húsnæði, stóra og dýra vélasamstæðu auk nokkurs mannafla. Varlega áætlað kostar það 10 krónur á hvern lítra að koma mjólkinni úr tanknum í fernuna.

Helstu kaupendur ópakkaðrar mjólkur eru aðilar sem eru í samkeppni við Mjólkursamsöluna í framleiðslu og sölu afurða sem unnar eru úr ópakkaðri mjólk. Í Verðlagsnefnd búvara sitja fulltrúar bænda og fulltrúar afurðastöðva (sem eru sameignarfyrirtæki bænda!), fulltrúi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins auk fulltrúa velferðarráðuneytisins sem ætlað er að gæta „hagsmuna“ neytenda, en því hlutverki sinntu fulltrúar ASÍ og BSRB áður. Afurðastöðvafulltrúarnir mata nefndina á upplýsingum um framleiðslukostnað og á grundvelli þeirra upplýsinga ákveður nefndin heildsöluverð hinna ýmsu afurða. Í fréttatilkynningu verðlagsnefndarinnar er lögð áhersla á að samþykktir hennar hafi verið samhljóða.

Dæmið hér að ofan um vanmat nefndarinnar á kostnaði við átöppun mjólkur á fernur benda til þess að fulltrúar ráðuneytanna tveggja hafi ekki sinnt upplýsingaöflunarskyldu sinni af þeirri kostgæfni sem eðlilegt er og búvörulög kveða á um. Það er ekki nóg að láta fulltrúa Mjólkursamsölunnar segja sér hvað kostar að tappa mjólk á fernu. Það þarf að afla sjálfstæðra upplýsinga. Sem er auðvelt því Mjólkursamsalan er ekki ein um að tappa vökva í TetraPakk-umbúðir hér á landi!

Í ljósi þess að miklir hagsmunir samkeppnisaðila Mjólkursamsölunnar annars vegar og neytenda hins vegar eru í húfi fer ég fram á að Verðlagsnefnd búvara endurskoði verðlagningu sína frá 17. júlí 2015 og lækki heildsöluverð á ópakkaðri mjólk um minnst 10 krónur á lítrann. Jafnframt fer ég fram á að nefndin geri opinberlega grein fyrir rökstuðningi fyrir verðbreytingum sem ákveðnar voru nú í júlí. Geti nefndin það ekki er eðlilegt að auglýsingin frá 17. júlí verði dregin til baka uns ákvörðun sem þolir almenna skoðun liggur fyrir. Jafnframt skora ég á Alþingi að fella mjólkurframleiðsluna undir samkeppnislög við allra fyrsta tækifæri.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×