Erlent

ESB vill stuðla að jafnvægi við Persaflóa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Federica Mogherini hitti Hassan Rouhani, forseta Írans, að fundi loknum.
Federica Mogherini hitti Hassan Rouhani, forseta Írans, að fundi loknum. nordicphotos/afp
Evrópusambandið og Íranar ætla að vinna að áætlun sem stuðlar að bættu sambandi Írana við nágrannaríki sín, Sýrland, Írak og Jemen.

Þessi niðurstaða fékkst eftir fund Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, og Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, í Teheran, höfuðborg Írans, í gær.

Fundurinn kemur í kjölfar samnings um kjarnorkumál Írana, en Evrópusambandið átti hlut að viðræðunum. „Samningurinn opnar nýjan kafla í tvíhliða samskiptum Evrópusambandsins við Írana.

„Við ákváðum í dag að hefja nýjar viðræður milli Írans og Evrópusambandsins til þess að kanna mögulega samvinnu á mörgum sviðum, allt frá orku til innanríkismála,“ sagði Zarif við blaðamenn.

Mogherini sagðist ætla að brúa bilið milli Írana og nágranna þeirra á svæðinu. Hún vill fjarlægjast samkeppni og átök og stuðla að samvinnu á svæðinu.

Fyrsta skrefið í nýjum viðræðum verður að kanna hvort Íranar og ríkin við Persaflóa, Kúveit, Barein, Írak, Óman, Katar, Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin, geti dregið úr ágreiningi við ríkisstjórnir Sýrlands, Íraks og Jemens og reynt að stuðla að meira jafnvægi í Mið-Austurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×