Erlent

Vilja skera á stuðning

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þetta fólk krefst þess að ríkið hætti að styðja kvenheilbrigðisstofnunina Planned Parenthood.
Þetta fólk krefst þess að ríkið hætti að styðja kvenheilbrigðisstofnunina Planned Parenthood. nordicphotos/afp
Öldungadeild Bandaríkjaþings mun í ágúst kjósa um hvort ríkisstjórnin eigi að hætta að styrkja einkareknu heilbrigðisstofnunina Planned Parenthood um 500 milljónir Bandaríkjadala á ári. Frumvarpið kemur frá fjórum repúblikönum.

Planned Parenthood veitir konum ýmiss konar heilbrigðisþjónustu á borð við leit að brjóstakrabbameini, getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Stofnunin framkvæmir fleiri fóstureyðingar í Bandaríkjunum en nokkur önnur. Talið er að ef ríkið hætti að styrkja hana fari hún á hausinn.

Frumvarpið kemur í kjölfar leka þriggja myndskeiða þar sem háttsettir stjórnendur Planned Parenthood ræða ólöglega sölu fósturvefs. Flutningsmenn frumvarpsins segja að ríkisstjórnin geti ekki stutt slíka starfsemi. Stofnunin hefur þó lýst því yfir að ekkert misjafnt hafi átt sér stað.

Repúblikanar hafa nauman meirihluta í öldungadeildinni, 54 þingmenn af 100, og eru flestir þeirra andvígir fóstureyðingum. 60 þingmenn þarf til að ríkið hætti stuðningnum. Nokkrir demókratar eru andvígir fóstureyðingum en spurning er hvort það dugi til.

„Gangi ykkur vel. Við erum að fást við heilsu bandarískra kvenna en þau eru að fást við geðbilun,“ sagði Harry Reid, leiðtogi demókrata á þinginu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×