Skoðun

Hvað kostar að framleiða einn lítra af mjólk?

Þórólfur Matthíasson skrifar
Í grein í nýlegu eintaki af vikuritinu Vísbendingu leitast ég við að svara spurningunni „Hvað kostar að meðaltali að framleiða einn lítra af mjólk á meðalmjólkurbúi?“. Eins og fram kemur í Vísbendingu sýnir kostnaðarlíkan Verðlagsnefndar búvara að það hafi kostað 179,77 krónur að framleiða einn lítra af mjólk árið 2012. Verðlagsnefndin er þó ekki trúuð á útkomu úr eigin líkani og skammtaði framleiðendum 127,39 krónur á lítrann á árinu 2012.

Hér skeikar svo miklu að væri einhver glóra í kostnaðarlíkani Verðlagsnefndarinnar væru allir mjólkurbændur landsins löngu gjaldþrota! Með því að skoða búreikninga og sníða af þeim aðferðafræðilega agnúa kemur í ljós að kostnaður meðalmjólkurframleiðslubús á Íslandi af að framleiða einn lítra af mjólk var 121,19 krónur árið 2012. Það er því greinilegt að slumpverðlagning Verðlagsnefndar búvara er bændum síður en svo óhagstæð! Hefði Verðlagsnefnd búvara endurnýjað verðlagsgrundvöll sinn í samræmi við tækniþróun og vinnusparnað hefði verð til bænda átt að vera um 5% lægra árið 2012 en það í raun var. Þarna munar um 6 krónum á lítra. Hvort vinnslukostnaður sé ofmetinn með sama hætti skal ósagt látið, en sjaldan er ein báran stök í verðlagsmálum. En vinnubrögð af því tagi sem Verðlagsnefnd búvara er hér uppvís að eru ekki sæmandi fyrir nefnd sem að nafninu til starfar á kostnað og í þágu almennings í landinu.

Ég vil endurtaka kröfu mína um að Verðlagsnefnd búvara geri opinberlega grein fyrir verðákvörðunum sínum. Jafnframt leyfi ég mér að krefjast þess að ráðherra landbúnaðarmála afturkalli auglýsingu nefndarinnar frá 17. júlí síðastliðnum og leggi fyrir nefndina að vinna sína vinnu af meiri nákvæmni. Jafnframt skora ég á Alþingi að fella mjólkurframleiðslu undir samkeppnislög hið allra fyrsta og lækka tolla á ostum og öðrum úrvinnsluafurðum mjólkur verulega.


Tengdar fréttir

Enn af verðofbeldi

Í ljósi þess að miklir hagsmunir samkeppnisaðila Mjólkursamsölunnar annars vegar og neytenda hins vegar eru í húfi fer ég fram á að Verðlagsnefnd búvara endurskoði verðlagningu sína frá 17. júlí 2015 og lækki heildsöluverð á ópakkaðri mjólk um minnst 10 krónur á lítrann.

Hagfræðiprófessor segir reynt að bola burt KÚ

Hagfræðiprófessor segir að Verðlagsnefnd búvöru rukki samkeppnisaðila Mjólkursamsölunnar um of fyrir mjólk til að knésetja þá. Forstjóri MS segir að án aðkomu hins opinbera lognist landbúnaður hér á landi út af.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×