Lífið

Þýsk sjónvarpsmyndasería tekin upp á Íslandi

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Franka Potente fer með aðalhlutverkið og er hér í gervi Solveigar.
Franka Potente fer með aðalhlutverkið og er hér í gervi Solveigar. mynd/FrankLübke
„Þeir fengu okkur til þess að aðstoða sig og við tókum upp í sumar í rúmlega fimmtíu daga,“ segir Fahad Jabali hjá kvikmyndafyrirtækinu Október sem aðstoðaði við framleiðslu á sjónvarpsmyndaseríunni Solveig Karlsdottir – Mysteries.

Tökurnar fóru fram í Reykjavík og einnig á Reykjanesi og á Grundarfirði. Myndirnar eru tvær og verða sýndar á þýsku sjónvarpsstöðinni Das Erste í kringum áramót og eru framleiddar af Neue Deutsche Filmgesellschaft.

Með hlutverk Solveigar fer þýska leikkonan Franka Potente en hún lék aðalhlutverk í Run Lola Run, The Bourne Identity og The Bourne Supremacy.

„Aðalpersónan er spennusagnahöfundur og rannsóknarlögreglukona í frístundum sem lendir í því að leysa flókin sakamál við og við. Þættirnir eru um hana. Þetta eru svona sakamálasögur.“

Talsverður fjöldi íslenskra leikara fer með hlutverk í myndinni, meðal annars Jóhann G. Jóhannsson og Elma Lísa Gunnarsdóttir.

Myndin verður talsett fyrir sýningu í þýskalandi og því þurfti Elma Lísa ekki að hafa áhyggjur af þýskukunnáttunni. „Það var bæði töluð enska og þýska. Svolítið sérkennilegt þegar maður var að leika. Ég tala ekki orð í þýsku,“ segir Elma Lísa sem leikur lykilpersónu í fyrri myndinni og hlær. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×