Erlent

Samningar næstum í höfn í Grikklandi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skiptar skoðanir eru meðal Grikkja á nýjum neyðaraðstoðarsamningi, en skilyrðum lánardrottna var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr í sumar.
Skiptar skoðanir eru meðal Grikkja á nýjum neyðaraðstoðarsamningi, en skilyrðum lánardrottna var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrr í sumar. nordicphotos/getty
„Við þokumst nær og nær. Einungis tvö eða þrjú smáatriði eru eftir,“ sagði Euclid Tsakalotos, fjármálaráðherra Grikklands, við fréttastofu Reuters í gær.

Gríska ríkið vinnur nú hörðum höndum að gerð samnings við seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um nýja, 12.600 milljarða króna neyðaraðstoð fyrir ríkið. Neyðaraðstoðarsamningurinn verður til þriggja ára og er bráðnauðsynlegur fyrir Grikki ef þeir ætla að halda sér innan evrusvæðisins og forðast gjaldþrot. Neyðaraðstoðin yrði sú þriðja á fimm árum en áður hafa sömu aðilar auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lánað Grikkjum.

Euclid Tsakalotos
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hyggst þó ekki vera með í nýja samningnum þar sem hinir lánardrottnar Grikkja vilja ekki fella niður hluta skulda Grikkja, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur nauðsynlegt svo ríkið geti náð efnahagslegum bata.

Grikkir vonast til að klára samninginn fyrir tuttugasta ágúst en þá þarf ríkið að borga 440 milljarða króna af láni frá seðlabanka Evrópu. 

Grikkir hafa samþykkt að stofna einkavæðingarsjóð að hvöt evrusvæðisins auk þess að uppfylla fleiri skilyrði neyðaraðstoðarsamningsins.

Nýi samningurinn á þó eftir að fara í gegn um gríska þingið eftir að hann er í höfn. Þar hefur Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikkja, mætt andstöðu nýverið þegar samþykkja þurfti lagapakka til að greiða fyrir samningaviðræðum. Andstaðan kom úr röðum samflokksmanna hans á þinginu en Tsipras þurfti að reiða sig á atkvæði stjórnarandstöðunnar til að fá frumvarpið samþykkt.

Tsipras hótaði þingmönnum sínum í kjölfarið nýjum kosningum, en hann er mjög vinsæll í Grikklandi og myndi samkvæmt skoðanakönnunum ná endurkjöri.

Fleiri góðar fréttir bárust Grikkjum í gær, en evran styrktist um 0,2 prósent gagnvart Bandaríkjadal. Gerðist það eftir að Kínverjar felldu gjaldmiðil sinn, júan, til að reyna að stemma stigu við miklu falli kínverska fjármálamarkaðarins. Útflutningur Kínverja dróst saman um 8,3 prósent í júlímánuði. Þá hafa hlutabréf í Grikklandi einnig lækkað í verði í kjölfar opnunar kauphallarinnar í Aþenu fyrr í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×