Lífið

Þúsund ára gamall ísklumpur í leikmyndinni

jóhann óli eiðsson skrifar
Nína Dögg Filippusdóttir og Stefán Hallur Stefánsson fara með hlutverk Höllu og Fjalla-Eyvindar.
Nína Dögg Filippusdóttir og Stefán Hallur Stefánsson fara með hlutverk Höllu og Fjalla-Eyvindar. vísir/vilhelm
Þjóðleikhúsið frumsýnir nýja uppsetningu leikritsins Fjalla-Eyvindar eftir Jóhann Sigurjónsson þann 26. mars. Einn mikilvægasti partur leikmyndarinnar, heljarinnar ísklumpur úr Jökulsárlóni, kom til Reykjavíkur í gær.

„Honum var rúllað beint inn í frystigám,“ segir sýningarstjórinn Kristín Hauksdóttir. Hún bætir við að nú fari í gang prófanir á því hve lengi klumpurinn endist og hvernig hann hagi sér. Kristín vonar að ekki þurfi að sækja fleiri ísjaka en vill ekkert gefa upp hvernig hann verður brúkaður á sviðinu.

„Þetta er afar frumleg hugmynd leikstjórans Stefans Metz og leikmyndahönnuðarins Seans Mackaoui,“ segir Kristín. Fólk verði að mæta á sýninguna og sjá hvert hlutverk klakans er með eigin augum.

„Ég bragðaði hann áðan og get sagt þér að það er enginn munur á þúsund ára gömlum ísmola úr Vatnajökli og venjulegum klaka í kókglasi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×