Lífið

Morrissey er ekki sáttur við mig

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Friðrik Ómar verður með kjöthleif í Hörpu um helgina, enda mikill kjötmaður.
Friðrik Ómar verður með kjöthleif í Hörpu um helgina, enda mikill kjötmaður. vísir
„Ég segi bara gangi honum vel að finna tónleikahús þar sem ekki er selt kjöt,“ segir tónlistarmaðurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson um Morrissey, sem hefur aflýst tónleikum sínum í Hörpu vegna þess að kjöt er selt í húsinu.

Friðrik Ómar stendur hins vegar fyrir mikilli kjötveislu í sama húsi um helgina, þegar Meatloaf-tónleikasýningin Bat Out Of Hell fer fram í síðasta sinn í Hörpu.

„Ég er mikill kjötmaður en hef hins vegar verið að djúsa í níu daga og get varla beðið eftir því að gæða mér á dýrindis kjöthleif,“ segir Friðrik Ómar.

Hann vill einnig meina að á meðan Meatloaf-tónleikasýningin hafi farið fram í Hörpu hafi sala á kjöti aukist til muna í húsinu. „Það verður rífandi sala á kjöti um helgina. Morrissey er líklega ekki sáttur við mig,“ bætir Friðrik Ómar við og hlær.

Hann og hans hópur eru nú að fylla Eldborg í fjórða skiptið með tónleikasýningunni en kjötveislan fyllir einnig Hof í fjórða sinn þann 21. febrúar. „Öll „showin“ hafa hætt fyrir fullu húsi. Nú klárum við þetta og undirbúum næstu verkefni. Við stefnum á frekari afrek á árinu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×