Lífið

Kvikmyndin Hrútar halar inn verðlaunum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hrútar fjalla um bræðurna Gumma, sem Sigurður Sigurjónsson leikur, og Kidda en þeir eru báðir sauðfjárbændur og búa hlið við hlið í afskekktum dal en talast ekki við.
Hrútar fjalla um bræðurna Gumma, sem Sigurður Sigurjónsson leikur, og Kidda en þeir eru báðir sauðfjárbændur og búa hlið við hlið í afskekktum dal en talast ekki við.
Myndin fjallar um bræðurna og sauðfjárbændurna Gumma og Kidda sem búa hlið við hlið í afskekktum dal. Eitthvað hefur slest upp á bróðurkærleikinn og hafa þeir ekki talast við í fjöldamörg ár þó þeir búi þarna steinsnar hvor frá öðrum og deili sama lífsviðurværi. Fjárstofn þeirra þykir vera einn sá besti á landinu og því verður uppi fótur og fit þegar riðuveiki kemur upp og bræðurnir standa frammi fyrir því að missa allt sem þeim er kærast.

Hrútum er leikstýrt af Grími Hákonarsyni sem einnig skrifar handrit myndarinnar og með hlutverk bræðranna fara þeir Sigurður Sigurjónsson og Theódór Júlíusson. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson.

Síðan myndin var frumsýnd hefur hún sópað til sín verðlaunum og í byrjun nóvember vann hún til þrennra verðlauna á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Semana í Valladolid á Spáni og hlaut hún þar Gullna gaddinn fyrir bestu mynd hátíðarinnar, áhorfendaverðlaun æskunnar og einnig deildi Grímur verðlaunum fyrir besta nýja leikstjórann með tyrkneska leikstjóranum Deniz Gamze Ergüven.

Um miðjan nóvember vann myndin til tvennra verðlauna í Minsk í Hvíta-Rússlandi og var einnig valin besta myndin í Þessalóníku í Grikklandi en hátíðin er elsta og virtasta kvikmyndahátíðin á Balkanskaga. Í janúar á næsta ári verður myndin sýnd á Sundance-hátíðinni sem fram fer í Utah en myndin er í Spotlight -flokknum þar sem sýndar eru myndir víðsvegar að sem vakið hafa athygli.

Líkt og áður kom fram hlutu Hrútar verðlaunin Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes og hefur síðan verið sýnd á fjölda kvikmyndahátíða og unnið níu aðalverðlaun en alls hefur myndin unnið til 21 verðlauna. Hrútar er jafnframt framlag Íslands á Óskarsverðlaunahátíðinni og heldur um helgina til Berlínar þar sem hún er tilnefnd sem besta kvikmyndin á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum í ár. Aðeins sex kvikmyndir eru tilnefndar til verðlaunanna, en Magnús eftir Þráin Bertelsson var tilnefnd til sömu verðlauna árið 1989.

Íslendingar hafa tvisvar unnið til verðlauna á hátíðinni. Árið 2000 var Björk valin besta leikkonan fyrir hlutverk sitt í Dancer in the Dark og Hilmar Örn Hilmarsson var árið 1991 verðlaunaður fyrir tónlistina í Börnum náttúrunnar.


Tengdar fréttir

Cohen kaupir Hrúta

Bandaríska framleiðslufyrirtækið Cohen Media Group hefur tryggt sér sýningarréttinn á íslensku kvikmyndinni Hrútar eftir Grím Hákonarson.

Hrútar unnu til þrennra verðlauna um helgina

Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson heldur áfram að vinna til verðlauna á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Myndin vann til tvennra verðlauna í Minsk í Hvíta Rússlandi á föstudagskvöldið og var auk þess valin besta myndin í Þessalóníku í Grikklandi á laugardagskvöldið. Það er elsta og virtasta kvikmyndahátíðin á Balkanskaga.

Hrútar unnu aðalverðlaunin í Zürich

Kvikmyndin Hrútar vann um helgina "Gullna augað“ á kvikmyndahátíðinni í Zürich í Sviss. Þetta eru aðalverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd en alls tóku fimmtán myndir þátt í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.