Gagnrýni

Skrautlegar persónur í Reykjavík nútímans

Ásdís Sigmundsdóttir skrifar
Bækur

Rogastanz

Ingibjörg Reynisdóttir

2014, Sögur útgáfa



Ein mikilvægasta ákvörðun sem höfundur tekur þegar hann skrifar skáldsögu er að velja frásagnarháttinn. Hinir ýmsu möguleikar hafa mismunandi áhrif og henta söguefni misvel.

Sú aðferð að segja sögu í þriðju persónu nútíð er ekki algeng í íslenskum bókmenntum og hefur helst tíðkast í þýðingum á erlendum barnabókum sem unnar eru upp úr sjónvarpsþáttum eða kvikmyndum.

Þessi háttur er líka algengur í handritaskrifum sem skýrir kannski af hverju upplifun mín á að lesa skáldsögu Ingibjargar Reynisdóttur, Rogastanz, var sú að ég væri að lesa lýsingu á sjónvarpsþætti eða kvikmynd.

Þessi frásagnarháttur getur aukið dramatíska spennu vegna þess að hann krefst þess að lesendur gangist inn á það að sagan sé að gerast, á þessum stað og stund, en ef höfundur er ekki þeim mun færari þá er hætta á að lesendur kaupi það ekki.

Það verður þá erfiðara fyrir lesendur að gangast inn á forsendur sögunnar og við það skapast fjarlægð gagnvart efninu. Myndræn útfærsla handrita yfirvinnur þetta vandamál en það gerist ekki jafn auðveldlega þegar texti er lesinn, sérstaklega vegna þess að ekki er mikil hefð fyrir þessari aðferð í íslenskum bókmenntum. Til að nota þennan frásagnarhátt þarf sagan því að vera mjög svo trúverðug og það er því miður ekki raunin hér.



Ingibjörg lýsir skrautlegum persónum í Reykjavík nútímans sem erfitt er að tengja við.

Aðalpersónan, Sara, sem er rúmlega fertugur blaðamaður, er skilgetið afkvæmi hinnar dæmigerðu söguhetju skvísubókmenntanna, hálf vandræðaleg einstæð kona sem er í leit að ást, en vandamálið er það að sú týpa er yfirleitt á þrítugsaldri og það er bara sorglegt að sjá manneskju sem ekki hefur þroskast neitt á tveimur áratugum.

Helstu aukapersónur eru flestar einhliða, annaðhvort nánast fullkomnar (lesbísku vinkonurnar) eða afskræmdar skrípamyndir (serbnesku hjónin). Persónusköpunin felst gjarnan í því að lesendum er sagt að persónurnar séu svona eða hinsegin frekar en að sagan leiði það í ljós.

Auk þessa er sjónarhornið sem Ingibjörg velur afskaplega flöktandi og óljóst. Farið er úr lýsingum á því sem gerist, forsögu persónanna og hugsunum þeirra auk túlkana sögumanns á þessu öllu án fyrirvara og án þess að stíll textans fylgi því eftir.

Alvitur sögumaður er auðvitað viðurkennt frásagnarform en þá skiptir öllu máli að frásögnin sé þannig að hvert atriði taki við af öðru á eðlilegan hátt og sviptingar sem þessar séu undirbyggðar eða að minnsta kosti hafi tilgang í heildarbyggingu sögunnar.

Í þessari bók er forsögu persónanna skeytt inn í söguna án þess að það sé í eðlilegu samhengi frásagnarinnar, samtöl sem hafa engan sérstakan tilgang eru allt of algeng og atriðum sem eiga að vera skondin er lýst þannig að það er erfitt fyrir lesanda að sjá þau fyrir sér vegna fyrrnefndrar fjarlægðar. Við það fellur grínið oftast um sjálft sig og þá stendur ekki mikið eftir.

Niðurstaða: Frásagnarhátturinn og vandamál í framsetningu sögunnar gera það að verkum að efnið nær engu flugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.