„Ég hef engan rétt yfir Carmen samkvæmt lögum. Konan sem fæddi hana hefur lögin sín megin,“ segir Bud Lake, maður sem fór ásamt eiginmanni sínum Manuel Santos til Tælands í því skyni að greiða staðgöngumóður fyrir að gana með barn þeirra. En eftir að dóttir þeirra, Carmen, fæddist í janúar sagðist staðgöngumóðirin vilja halda henni. Nú er framtíð Carmen í höndum tælenskra dómstóla.
Lake og Santos hafa síðan dvalist í Bangkok og óttast um afdrif Carmen sem þeir telja án alls vafa að sé dóttir þeirra. Aðstæðurnar í Tælandi eru flóknar hvað varðar staðgöngumæðrun þessa stundina. Áður var mikill iðnaður í kringum staðgöngumæðrun í Tælandi og algengt að erlend pör sem ekki gátu eignast börn ferðuðust til landsins í því skyni að finna staðgöngumóður.
Lagalega flókið mál
En nú hafa yfirvöld ákveðið að leggja blátt bann við iðjunni og lög sem kveða á um að staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé refsivert athæfi taka gildi í lok mánaðar. Feður Carmen vonast til þess að geta nýtt sér tímabundið ákvæði í lögunum sem myndi leyfa þeim að fara heim með Carmen en samkvæmt ákvæðinu eru fyrirhugaðir foreldrar skilgreindir sem eiginkona og eiginmaður. Ákvæðið kveður á um að þeir foreldrar sem þegar áttu von á barni í gegnum tælenska staðgöngumóður hafi leyfi til að taka barnið með sér heim.
Carmen er líffræðilega dóttir Lake og annarrar konu sem gaf egg sitt. Lake heldur að Kusolsang, staðgöngumóðirin, hafi hætt við að gefa þeim Carmen eftir að hún komst að því að þeir væru hommar.
Á fyrsta sáttafundi parsins og staðgöngumóðurinnar „sagði hún að við værum ekki venjuleg fjölskylda,“ sagði Lake í samtali við CNN.
Kusolsang hefur þvertók fyrir það að kynhneigð mannanna sé vandamálið í samtali við CNN og segist aðeins hafa velferð barnsins síns í huga. „Ég sakna hennar á hverjum degi,“ sagði Kusolsang. „Maður sér hvað heimurinn er vondur í dag. Og ég bara veit ekki hvað þeir ætla að gera við barnið mitt.“
„Ég vil ekki peningana, ekki eina krónu.“
Hún sagði í samtali við CNN að hún hefði skipt um skoðun fyrir mörgum mánuðum og reynt án árangurs að finna frekari upplýsingar um fyrirhugaða foreldra barnsins sem hún bar þá undir belti. Hún hefur skrifað bæði lögreglunni á Tælandi og sendiráði Bandaríkjanna þar sem hún biður um að fá að halda Carmen og skila peningum Lake og Santos. „Ég vil ekki peningana hans, ekki eina krónu,“ sagði hún.
Hins vegar hefur NPR fréttastofan það eftir henni að kynhneigð mannanna sé raunverulega vandamálið. Þeir séu af sama kyni ekki eins og „kona og karl sem gætu annast barn.“ Hún gefur þó upp fleiri ástæður. „Í öðru lagi þá vildu þeir ekki tala við mig þegar ég hafði samband við þá til að hitta barnið. Í þriðja lagi vildu þeir ekki leyfa mér að hitta hana þegar ég grátbað þá um það. Þeir hafa komið mjög illa fram við mig og leyfa mér ekki að hitta barnið.“
„Fyrir okkur er ekki möguleiki að missa Carmen,“ sagði Lake. „Hún er dóttir okkar og dóttir okkar á að vera hjá okkur.“ Parið hyggst fara til dómara 30. júlí næstkomandi og leggja fram formlega beiðni um að fá að fara með Carmen úr landinu. Þeir ætla að dvelja í Tælandi eins lengi og deilan við staðgöngumóðurin stendur.
Erlent