Lífið

Upphitun fyrir druslugönguna í kvöld

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Ingileif Friðriksdóttir, Helga Margrét Mar, Sunna Ben, Gréta Þorkelsdóttir og María Rut Kristinsdóttir eru í skipulagsnefndinni ásamt fleirum.
Ingileif Friðriksdóttir, Helga Margrét Mar, Sunna Ben, Gréta Þorkelsdóttir og María Rut Kristinsdóttir eru í skipulagsnefndinni ásamt fleirum. Vísir/Pjetur
Skipulagsnefnd Druslugöngunnar stendur fyrir svokölluðu peppkvöldi í kvöld. Veislan hefst klukkan níu á skemmtistaðnum Húrra en mælt er með því að mæta snemma þar sem færri komust að en vildu á seinasta ári.

„Þetta er nokkurs konar upphitun fyrir gönguna á laugardaginn. Það koma fram tónlistarmenn, það verða tilboð á barnum og síðast en ekki síst verðum við að selja varninginn svo að fólk geti druslað sig upp fyrir gönguna,“ segir Sunna Ben en hún mun meðal annars spila í kvöld.

Sunna mun þeyta skífurnar í lok kvölds en á undan henni verða meðal annars dj flugvél og geimskip, Vaginaboys og Sturla Atlas.

„Við eigum von á mjög mörgum í kvöld enda hefur farið mikið fyrir umræðunni um druslugönguna undanfarið. Það hafa 1.000 manns boðað komu sína á Facebook en það er mun meira en Húrra þolir svo að við mælum með því að mæta fyrr en seinna og nýta tilboðin á barnum. Í fyrra þurftum við að vísa fólki frá vegna eftirspurnar. Við verðum með derhúfur, boli og tyggjótattú til sölu svo að fólk geti verið undirbúið fyrir gönguna. Það sem verður eftir verður selt í druslugöngunni. Varningurinn seldist hratt upp í fyrra þannig að við urðum að panta inn meira magn í ár svo að við vonum að sem flestir nái að næla sér í eitthvað til þess að skreyta sig með.“ 


Tengdar fréttir

Hanna drusluvarninginn í ár

Þær Gréta Þorkelsdóttir og Helga Dögg Ólafsdóttir hanna varning og plaköt fyrir Druslugönguna í ár. Hægt verður að kaupa húfur og tattú í göngunni sjálfri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×