Erlent

Miðjarðarhaf: Tíu punkta viðbragðsáætlun ESB

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins munu skrá fingraför allra flóttamanna.
Yfirvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins munu skrá fingraför allra flóttamanna. Vísir/AFP
Utanríkis- og innanríkisráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins samþykktu í gær viðbragðsáætlun í tíu liðum sem miðar að því að koma í veg fyrir fleiri harmleiki tengdum bátsferðum flóttafólks frá norðurströnd Afríku til Evrópu.

Ráðherrarnir komu saman til fundar í gær eftir að um átta hundruð manns drukknuðu eftir að illa búinn og ofhlaðinn bátur þeirra sökk undan strönd Líbíu um helgina.

Á vef framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins má sjá áætluna:

  • Að styrkja sameiginlegar aðgerðir í Miðjarðarhafi, fyrst og fremst Triton og Poseidon, með því að auka fjárframlög til þeirra og búnað. Evrópusambandið mun einnig stækka eftirlitssvæði sitt í Miðjarðarhafi.
  • Sambandið mun vinna kerfisbundið að því að hafa uppi á og eyðileggja þá báta sem smyglarar hyggjast notast við til að ferja flóttafólk yfir Miðjarðarhaf. Notast skal við „Atalanta“, verkefni ESB undan strönd Sómalíu þar sem unnið er að því að draga úr sjóránum, sem fyrirmynd. Embættismenn ESB segja þetta bæði verð aborgaralegt og hernaðarlegt verkefni, en gáfu engar frekari upplýsingar.
  • Fulltrúar EUROPOL, Landamærastofnunar Evrópu og Flóttamannastofnunar Evrópu og saksóknarar munu funda reglulega og vinna saman að því að safna upplýsingum um smyglara, þar á meðal kortleggja fjármögnunarleiðir þeirra.
  • Flóttamannahjálp Evrópusambandins mun senda teymi til Ítalíu og Grikklands sem munu vinna í sameiningu að öllum hælisumsóknum.
  • Yfirvöld í aðildarríkjum Evrópusambandsins munu skrá fingraför allra flóttamanna.
  • Evrópusambandið mun íhuga að koma upp sérstöku verklagi sem snýr að „flutningi flóttafólks“.
  • Evrópusambandið mun hleypa af stökkunum nýju tilraunaverkefni, sem snýr að því að bjóða flóttamönnum möguleika á að setjast að á nokkrum stöðum í álfunni.
  • Frontex, landamærafrofnun ESB, hyggst koma á nýrri flýtiáætlun til að senda ólöglega flóttamenn aftur til baka.
  • Framkvæmdastjórn ESB hyggst auka samskipti sín við yfirvöld í nágrannaríkjum Líbíu.
  • Evrópusambandið hyggst senda út sérstaka fulltrúa til erlendra ríkja til að safna upplýsingum um straum flóttamanna og efla hlutverk sendinefnda ESB.
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, boðaði í gær til neyðarfundar hjá leiðtogum aðildarríkjanna til að ræða vandann. Munu þeir funda í Brussel á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×