Viðskipti innlent

Orka HS Orku bundin við álver í Helguvík

Kolbeinn Óttarsson Proppe skrifar
Ásgeir Margeirsson segir að uppi sé ágreiningur um orkusölusamninginn við Norðurál.
Ásgeir Margeirsson segir að uppi sé ágreiningur um orkusölusamninginn við Norðurál.
Hendur HS Orku eru fremur bundnar þegar kemur að nýtingu virkjanakosta og sölu raforku vegna ágreinings við Norðurál um orkusölusamning vegna álvers í Helguvík. Málið hefur verið í farvegi gerðardóms í tvígang síðan árið 2010. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir fyrirtækið vilja vera þátttakanda í orkufrekum verkefnum, en það geti lítið gert í því meðan beðið er niðurstöðu um gildi Helguvíkursamningsins.

„Við viljum að sjálfsögðu selja orku eins og unnt er, Norðuráli eða öðrum, en staðan er sú að HS Orka gerði samning við Norðurál Helguvík um umtalsvert mikla orku og uppi er ágreiningur um þýðingu hans í dag, nú þegar álverið er hvergi nærri byggt og ekki unnt að afhenda orku þangað,“ segir Ásgeir.

Orkuverð hefur verið tengt álverði og í orkusölusamningum er ákveðin arðsemiskrafa. Ekki er ljóst hvenær af framkvæmdum Norðuráls í Helguvík verður.

Norðurál fór í mál við HS Orku árið 2010 vegna samnings um orku til álvers í Helguvík, en HS Orka taldi skilyrði samningsins ekki hafa verið uppfyllt. Gerðardómur í Svíþjóð úrskurðaði þannig að samningurinn væri í gildi, en skilyrði hans hefðu ekki verið uppfyllt. Þá var kveðið á um ákveðna arðsemi af orkusölunni.

„Síðan þá hefur ekki fundist lausn á málinu,“ segir Ásgeir. Á meðan svo er getur fyrirtækið ekki selt öðrum orku sína nema í mjög litlu magni.“

HS Orka fór í mál við Norðurál í júlí í fyrra til þess að fá skorið úr um gildi samningsins. Niðurstöðu gerðardómsins er að vænta sumarið 2016.

Orkusölusamningurinn snýst um 150 MW af orku. HS Orka vill losna undan samningnum til að nýta orkuna í annað. Ljóst er að á meðan Norðurál og HS Orka deila um samninginn verður ekki af því og nýting orkunnar er því bundin því að Norðurál geti nýtt hana í Helguvík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×