Fótbolti

Champagne fagnar framboði Prinsins

Prins Ali.
Prins Ali. vísir/getty
Jerome Champagne fagnar því að Prins Ali bin al Hussein ætli að keppa við sig og Sepp Blatter um forsetastólinn hjá FIFA.

Champagne var sá eini sem hafði boðið sig fram gegn Blatter og hann vonast til þess að fleiri muni taka þátt í kjörinu.

„Ég hef alltaf verið talsmaður lýðræðis og því fleiri sem taka þátt því betri og líflegri verða umræðurnar um framtíð FIFA. Það verða vonandi kappræður eins og fyrir bandarísku forsetakosningarnar," sagði Champagne sem hefur verið hjá FIFA síðan 1999.

Blatter hefur verið forseti FIFA síðan 1998 og það er ekkert fararsnið á honum þrátt fyrir fjölmörg hneykslismál sem hafa komið upp í forsetatíð hans.

Þrátt fyrir þessi tvö nýju framboð er Blatter talinn standa sterkur að vígi og þarf mikið að breytast ef það á að velta honum úr stóli í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×