Innlent

Björgunarsveitir leita fjögurra manna og fimmtíu hesta

Gissur Sigurðsson skrifar
Mennirnir sem eru týndir voru að reka hrossin yfir heiðarnar frá Arnarvatnsheiði áleiðis að Áfangafelli. Mynd úr safni.
Mennirnir sem eru týndir voru að reka hrossin yfir heiðarnar frá Arnarvatnsheiði áleiðis að Áfangafelli. Mynd úr safni. Vísir
Leit stendur yfir að fjórum hestamönnum og að minnsta kosti 50 hrossum sem þeir voru að reka yfir heiðarnar frá Arnarvatnsheiði áleiðis að Áfangafelli, þangað sem þeir ætluðu að vera komnir í gærkvöldi.

Blind þoku gerði á svæðinu í gærkvöldi og þar sem þeir skiluðu sér ekki á réttum tíma hófst leit upp úr miðnætti. Landsbjargarmenn eru á sex til átta bílum að aka slóða á heiðunum en skyggni er ekki nema tíu metrar.

Um það bil sex stiga hiti hefur verið á svæðinu í nótt og eru mennirnir vel búnir. Stutt símasamband náðist við einn þeirra upp úr klukkan eitt í nótt og voru þeir þá orðnir rammvilltir, en ekkert samband hefur náðst við þá síðan.

Ekki er þó óttast að eitthvað hafi komið fyrir mennina, heldur séu farsímar þeirra líkleg orðnir rafmagnslausir. Vonast er til að mennirnir finnist fljótt um leið og þokunni léttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×