Erlent

Bandaríkin senda 250 skriðdreka til Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá æfingu NATO í Lettlandi fyrr á þessu ári.
Frá æfingu NATO í Lettlandi fyrr á þessu ári. Vísir/EPA
Bandaríkin munu dreifa um 250 skriðdrekum, brynvörðum bifreiðum og annars konar búnaði um sex Evrópulönd. Þar á meðal eru Eystrasaltslöndin, en tilgangur þessa er sagður vera að róa bandamenn Bandaríkjanna sem finnst þeim vera ógnað af Rússlandi.

Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, kynnti þetta í dag eftir fund sinn með varnarmálaráðherrum Eistlands, Lettlands og Litháen. Hann sagði að búnaðurinn yrði færður á milli landa og meðal annars notaður til æfinga.

Í gær tilkynnti Carter að Bandaríkin myndu útvega nýrri viðbragðssveit NATO vopn, flugvélar og menn, þar á meðal sérsveitir.

Samkvæmt AP fréttaveitunni voru varnarmálaráðherra Eystrasaltsríkjanna myrkir í máli um þá ógn sem þeim stafar af Rússlandi. Sven Mikser, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði að Eystrasaltsríkin væru ekki að reyna að koma af stað nýju vopnakapphlaupi við Moskvu. Heldur myndi aukinni viðvera Bandaríkjanna breyta reiknidæminu fyrir Rússa.

„Á heimsmælikvarða ráða Rússar ekki við Bandaríkin eða NATO. En hér í okkar heimshluta telur Pútín að hann sé með yfirburði,“ sagði Mikser. Hann tók einnig fram að Eistland væri tilbúið til að taka við búnaðinum samstundis.

Búnaðinum verður komið fyrir í Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Rúmeníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×