Þýskaland skaust upp í toppsæti D-riðilsins með 3-1 sigri á Póllandi í kvöld en Bayern Munchen leikmennirnir Mario Götze og Thomas Müller sáu um markaskorunina fyrir þýska liðið.
Müller og Götze skoruðu sitt hvort markið með sjö mínútna millibili í fyrri hálfleik en liðsfélagi þeirra hjá Bayern, Robert Lewandowski minnkaði muninn skömmu fyrir leikhlé.
Liðin skiptust á færum í seinni hálfleik þar til Mario Götze skoraði þriðja mark Þýskalands sem gerði endanlega út um leikinn tíu mínútum fyrir leikslok. Pólland reyndi að færa sig framar á völlinn eftir það en náði ekki að klóra í bakkan og lauk leiknum fyrir vikið með 3-1 sigri Þýskalands.
Írland skaust upp fyrir nágranna sína í Skotlandi með 4-0 sigri á Gíbraltar á útivelli í kvöld. Írland er í 3. sæti D-riðilsins þegar þrjár umferðir eru eftir, tveimur stigum á eftir Póllandi.
Þá vann Norður-Írland 3-1 sigur í Færeyjum og Finnland vann óvæntan sigur í Grikklandi.
Úrslit kvöldsins:
Danmörk 0-0 Albanía
Færeyjar 1-3 Norður-Írland
Þýskaland 3-1 Pólland
Gíbraltar 0-4 Írland
Grikkland 0-1 Finnland
Ungverjaland 0-0 Rúmenía
Serbía 2-0 Armenía
Þýskaland skaust í toppsætið með sigri | Öll úrslit kvöldsins
