Erlent

Rússneskur stjórnarflokkur kynnir fána fyrir gagnkynhneigða

Bjarki Ármannsson skrifar
Myllumerkið undir myndinni ku þýða #alvörufjölskylda á íslensku.
Myllumerkið undir myndinni ku þýða #alvörufjölskylda á íslensku. Mynd/Moskvudeild Sameinaðs Rússlands
Moskvudeild rússneska stjórnarflokksins Sameinað Rússland kynnti í vikunni sérstakan fána fyrir gagnkynhneigða. Fánann á að nota í herferð gegn því sem flokkurinn kallar harðskeyttan áróður LGBT-samfélagsins í Rússlandi gegn hefðbundnum gildum.

Að því er fréttastofa RT greinir frá, er fáninn til í þremur útgáfum. Á þeim öllum er mynd af manni, konu og þremur börnum að haldast í hendur. Undir myndinni er myllumerkið #alvörufjölskylda á rússnesku.

„Þetta er svar okkar við samkynja hjónaböndum,“ segir þingmaðurinn Aleksei Lisóvenkó, varaformaður Moskvudeildar Sameinaðs Rússlands, sem í síðasta mánuði fór fram á bann við hinum þekkta regnbogafána LBGT-samfélagsins.

„Samkynja hjónabönd gera lítið úr fjölskylduhugtakinu. Við verðum að koma í veg fyrir hommafár í landi okkar og styðja við hefðbundin gildi.“

Fjandsemi og tortryggni í garð LBGT-hópsins er nokkuð útbreidd og skemmst er að minnast þess þegar umdeild lög gegn „áróðri samkynhneigðra“ voru samþykkt þar í landi fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×