Lífið

Loksins rétti tíminn til að koma með sólóplötu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigurgeir kemur fram á tónleikum ásamt hljómsveit í kvöld.
Sigurgeir kemur fram á tónleikum ásamt hljómsveit í kvöld. mynd/finnbogi s. marinósson
„Mér fannst þetta bara vera rétti tíminn til að koma með plötu,“ segir gítarleikarinn Sigurgeir Sigmundsson en út er komin hans fyrsta sólóplata. Efni plötunnar er sótt í rokk, blús, djass og íslenska náttúru.

Á plötunni eru þrettán leikin (instrumental) lög, þar af eru tólf eftir Sigurgeir. Eina tökulagið er Heyr himnasmiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson.

„Við byrjuðum að taka upp í desember og kláruðum í febrúar. Það er þarna eitt lag frá 1982 en margt var samið sérstaklega fyrir plötuna,“ segir Sigurgeir um plötugerðina.

Platan var tekin upp í Stúdíói Paradís og um upptökur og hljóðblöndun sá Jóhann Ásmundsson.

Á plötunni leikur úrval íslenskra hljómlistarmanna. Jóhann Ásmundsson sér um allan bassaleik, húðirnar berja þeir Einar V. Scheving, Sigfús Óttarsson og Erik Qvik. Eyþór Gunnarsson, Kjartan Valdemarsson, Óskar Einarsson, Þórir Baldursson og Þórir Úlfarsson leika á hljómborð.

Hljómsveitin Start leikur í tveimur aukalögum sem eru annars vegar Paradís, sem samið var í minningu Péturs W. Kristjánssonar söngvara, og Ekkert mál, sem var titillag samnefndrar heimildarmyndar um Jón Pál Sigmarsson, sterkasta mann heims, en hefur ekki komið út á hljómplötu áður.

Sigurgeir hefur um langa hríð verið einn virkasti rokkgítarleikari landsins og leikið meðal annars með Bubba Morthens, Gildrunni, Starti, Tyrkja-Guddu, Skonrokki, Klaufunum, Gullfossi, Björgvini Halldórssyni, Drýsli og Eiríki Haukssyni.

Sigurgeir og Draumabandið leika á Græna hattinum á Akureyri í kvöld, Rauðku Siglufirði 10. júlí og 11. júlí í Hótel Reynihlíð í Mývatnssveit. Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 20.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×