Viðskipti innlent

Þessi verður stærsta áætlunarþota Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stærstu þotur sem sést hafa í áætlunarflugi til og frá Íslandi verða á leiðum til Los Angeles og San Fransisco en WOW air hefur ákveðið að hefja flug þangað næsta sumar.

Það þótti stórt skref í vor hjá þessu fjögurra ára gamla flugfélagi að hefja Ameríkuflug, til fjögurra borga á austurströndinni, en félagið sýndi þá nýjustu þotu sína á Reykjavíkurflugvelli, af gerðinni Airbus A321. Tvær slíkar bættust þá í flotann til viðbótar við styttri vélar af gerðinni Airbus A320.

Skúli Mogensen, stofnandi og eigandi WOW air, við komu fyrstu Airbus A321-þotu félagsins til Reykjavíkur í vor.Vísir/VG
En nú er eigandi WOW, Skúli Mogensen, búinn að tilkynna sannkallað risaskref. Hann er að bæta við tvöfalt stærri vélum, þremur breiðþotum af gerðinni Airbus A330, en listaverð einnar slíkrar er um 32 milljarðar króna. WOW tilkynnti jafnframt í dag að það myndi hefja áætlunarflug næsta sumar til vesturstrandar Bandaríkjanna; fjórar ferðir á viku til Los Angeles og fimm til San Fransisco í Kaliforníu. Það verður þannig fyrsta íslenska flugfélagið til að bjóða upp á beint flug til Los Angeles.

Breiðþotur WOW verða með 340 sæti um borð og verða stærstu þotur sem flogið hefur verið í áætlunarflugi til og frá Íslandi. Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi WOW, segir að með þessari aukningu muni félagið meira en tvöfalda sætaframboð sitt á næsta ári, úr 900 þúsund sætum í ár upp í tæplega tvær milljónir sæta á næsta ári. 



Í frétt frá WOW air í dag kom fram Airbus A330-300 vélar væru sparneytnar, umhverfisvænar og langdrægar breiðþotur sem hefðu drægni upp á 11.750 kílómetra. Vélarnar gætu tekið að hámarki 440 farþega en vélar WOW air yrðu með 340 sætum til þess að hægt væri að bjóða upp á aukið sætabil og þægindi. Lengd þeirra er 64 metrar og vænghafið er 60 metrar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×