Íslenski boltinn

Stjórnarmaðurinn sem reifst við Pétur hættur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur og félagar eru í vondum málum í 1. deildinni.
Pétur og félagar eru í vondum málum í 1. deildinni. vísir/andri marinó
Viðar Guðjónsson er hættur í stjórn knattspyrnudeildar Fram eftir atvik sem átti sér stað í leik Fram og Selfoss í gær. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu Fram.

Viðar hafði afskipti af störfum Péturs Péturssonar, þjálfara Fram, í leiknum í gær og kom til orðaskipta þeirra í milli.

Samkvæmt frétt Fótbolta.net gekk Viðar að varamannabekk Fram og sagði eitthvað við Pétur sem brást ókvæða við, ýtti við Viðari og sagði honum að „drulla sér í burtu“. Viðar er nú hættur í stjórn knattspyrnudeildar sem lýsir yfir stuðningi við Pétur.

Fram tapaði leiknum 1-2 og er nú aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir af 1. deildinni.

Nánar verður fjallað um málefni Fram í Fréttablaðinu á morgun.

Yfirlýsingin í heild sinni:

Vegna atviks sem átti sér stað á meðan á leik Fram og Selfoss stóð í gær, þegar stjórnarmaður í knattspyrnudeild reyndi að hafa afskipti af störfum þjálfara, skal áréttað að stjórn knattspyrnudeildar hefur tekið á málinu og mun viðkomandi stjórnarmaður stíga til hliðar.

Stjórn knattspyrnudeildar Fram harmar uppákomuna og lýsir yfir fullum stuðningi við Pétur Pétursson þjálfara. Stjórnin hvetur alla Framara til að snúa nú bökum saman í baráttunni fyrir áframhaldandi sæti í 1. deild.

Áfram Fram !

Sverrir Einarsson

Formaður Knattspyrnudeildar FRAM




Fleiri fréttir

Sjá meira


×