Innlent

Brynja Þorgeirsdóttir ráðin menningarritstjóri Kastljóss

Birgir Olgeirsson skrifar
Brynja Þorgeirsdóttir.
Brynja Þorgeirsdóttir. Vísir/RÚV
Brynja Þorgeirsdóttir hefur verið ráðin menningarritstjóri fréttaþáttararins Kastljóss í Sjónvarpinu. Þóra Arnórsdóttir var nýverið ráðin ritstjóri þáttarins eftir að Sigmar Guðmundsson lét af störfum en þátturinn snýr aftur í lok ágúst.

Ríkisútvarpið segir ráðningu Brynju vera lið í því að efla umfjöllun RÚV um menningu með því að færa hana á besta stað í dagskránni ásamt því að efla Kastljós og auka fjölbreytni þáttarins. Brynja var áður stjórnandi menningarþáttarins Djöflaeyjunnar en RÚV segir krafta þess þáttar og dagskrárgerðarfólk renna inn í menningarhluta Kastljóss.

Til viðbótar bætast við fleiri nýir þáttagerðarmenn og álitsgjafar um menningu og listir.  Einnig verður boðið upp á vikulega samantekt menningarefnis á sunnudögum.

Auk Þóru Arnórsdóttur og Brynju Þorgeirsdóttur verða fastir umsjónarmenn Kastljóss þau Helgi Seljan, Helga Arnardóttir og Baldvin Þór Bergsson. Þá mun samstarf Kastljóss og Fréttastofunnar enn aukast og þrautreyndir fréttamenn koma að dagskrárgerð í þættinum. Brynja hefur hlotið Edduverðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins og einnig hafa Orðbragð og Djöflaeyjan hlotið Edduna.


Tengdar fréttir

Sigmar hættir í Kastljósinu

Unnið að breytingum á Kastljósi. Skoðað hvort Djöflaeyjan tengist þættinum með óbeinum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×