Fótbolti

Meiddist í Evrópuleik og mátti ekki hnerra í tvær vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Anderson.
Steven Anderson. Vísir/Getty
Steven Anderson, varnarmaður skoska liðsins St Johnstone, þurfti að hræðast það að hnerra í tvær vikur eftir að hafa orðið fyrir olnbogaskoti í leik á dögunum.

Anderson meiddist á andliti í Evrópudeildarleik á móti Alashkert frá Armeníu. Hann var strax kominn með stóra kúlu undir auganu skömmu eftir atvikið.

Anderson fékk höggið í seinni hálfleik í seinni leiknum en St Johnstone datt út á færri mörkum skoruðum á útivelli. Anderson vildi halda leik áfram en læknar liðsins bönnuðu honum það.

Þegar kom upp á sjúkrahús kom í ljós sprunga í augntóft vinstri augans og Anderson varð því að leggjast undir hnífinn.

Skoska Sun segir í morgun frá varnaðarorðum lækna Steven Anderson eftir að leikmaðurinn hafði gengist undir aðgerð til að auka stöðugleik vinstri augans.

Læknar Anderson vöruðu hann við því að hann mætti ekki hnerra í tvær vikur því þá gæti vinstra augað hans hreinlega dottið út úr augnatóftinni.

Steven Anderson er 29 ára gamall og hefur spilað með St Johnstone í meira en áratug. Hann hefur spilað yfir 300 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.

Stærsta stundin hans var örugglega í bikarúrslitaleiknum á móti Dundee United árið 2014 en hann skoraði þá fyrra markið í 2-0 sigri. Þetta er eini stóri titillinn í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×