Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL sitja enn á fundi með samninganefnd ríkisins í Karphúsinu. Fundurinn hófst klukkan tíu í morgun.
„Það hefur verið þokkalegur gangur í þessu. Eða við skulum segja eðlilegur gangur. Helgarnar eru oft ansi drjúgar í svona. Þá er ekki annað að trufla,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
„Kostnaðarramminn er kominn en við höfum verið að raða inn í kostnaðarrammann núna og sjá hvernig þetta kemur út þar. Svo erum við að byrja í þessum sérstæku málum sem eru mörg hver mjög þung. Þá aðallega sem snýr að vaktavinnu og slíkt.“
Verkfall sjúkraliða í dagvinnu hefur staðið síðan 15. október og þá eru sjö hundruð aðrir starfsmenn spítalans í verkfalli. Takist ekki að semja skellur á tímabundið verkfall félagsmanna SFR á ríkisstofnunum dagana 29. og 30. október – það þriðja í mánuðinum. Verkfallslotur þessar setja mark sitt á samfélagið.
„Samningaviðræðurnar klárast auðvitað ekki fyrr en kvittað er undir,“ segir Árni Stefán en honum reynist erfitt að spá fyrir um hvenær kjaraviðræðunum lýkur. „Þetta er ekki komið á það stig að við getum sagst sjá fyrir endann á þessu.“
Fundað verður áfram í dag.
Svíþjóð
Ísland