Lífið

Skrautið varð Haugur

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Lóa fór að safna skrauti af sviðinu og úr varð Haugurinn.
Lóa fór að safna skrauti af sviðinu og úr varð Haugurinn. Mynd/LóaHlín
„Upphaflega ætlaði ég að reyna að finna einhvern milliveg á milli myndlistarbakgrunns míns og tónlistarinnar og var með rosa pælingu. En þetta er bara tengingin, hún kom bara af sjálfri sér,“ segir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, mynd- og tónlistarkona, um verkið Hauginn sem verður sýnt í Galleríi Gróttu.

„Við í FM Belfast vorum að túra allt síðasta ár og við skreytum alltaf sviðið þegar við túrum,“ segir Lóa og bætir við: „Í fyrra byrjaði ég að tína skrautið saman eftir tónleika. Í fyrstu til þess að spara pening, svo af því það var svo fallegt. Svo fór þetta bara að stækka og stækka.“

Haugurinn varð hluti af sviðsmyndinni og ferðaðist með hljómsveitinni um alla Evrópu. Hann hefur því komið víða við og Lóa segir persónulega tengingu hafa orðið til á milli hljómsveitarmeðlima og Haugsins sem varð að nokkurs konar sjöunda meðlim hljómsveitarinnar.

„Stundum var fólk orðið fúlt út í hann af því að hann tók svo mikið pláss á sviðinu og var að stela alls konar dóti. Guð má vita hvað leynist inni í þessari flækju,“ segir Lóa og hlær.

Sýningin verður opnuð á Safnanótt klukkan sjö í Galleríi Gróttu sem staðsett er á annarri hæð á Eiðistorgi við hlið Bókasafns Seltjarnarness. Einnig mun Lóa verða með leiðsögn um Gallerí Gróttu klukkan tíu í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×