Innlent

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins togast á um tekjur af auglýsingum

garðar örn úlfarsson skrifar
"Ef menn telja nauðsynlegt að auglýsing nái til allra, þá er hún betur komin inni á opnum fjölmiðli á vefnum,“ segir markaðsstjóri Austurfréttar og vísar á vefútáfu félagsins.
"Ef menn telja nauðsynlegt að auglýsing nái til allra, þá er hún betur komin inni á opnum fjölmiðli á vefnum,“ segir markaðsstjóri Austurfréttar og vísar á vefútáfu félagsins. Fréttablaðið/valli
Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi í Fljótsdalshéraði og markaðsstjóri Austurfréttar, vill að sveitarfélög eystra auglýsi meira í fjölmiðlum fyrirtækisins.

Í bréfi til bæjaryfirvalda í Fljótsdalshéraði áætlar Stefán að síðustu viku hafi Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð auglýst fyrir samtals 295 þúsund krónur í Dagskránni og 31 þúsund krónur í Austurglugganum.

„Dagskráin er auglýsingamiðill en rétt er að halda því til haga að hún er ekki fjölmiðill. Þar á sér ekki stað nein ritstjórnarvinna og áhrif Dagskrárinnar sem slíkrar á samfélagið eru engin í þessu samhengi,“ segir Stefán sem kveður viðskipti frá Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði myndu gera kleift að ráða að minnsta kosti einn blaðamann til viðbótar.

„Í rekstri þar sem barist hefur verið við að ná að halda tveimur manneskjum í vinnu við þetta, þá myndi þriðja manneskjan breyta ansi miklu,“ útskýrir Stefán sem kveðst ekki sammála því sjónarmiði að sveitarfélögin verði að auglýsa í miðli sem berist „öllum“. Ekkert sé athugavert við að sveitarfélögin beini viðskiptum sínum til áskriftarmiðla.

„Þá veit fólk einfaldlega hvar það á að leita eftir tilkynningum sveitarfélagsins. Þannig geta sveitarfélögin eflt fjölmiðlun með því að hvetja íbúa sína til að vera áskrifendur,“ segir Stefán Bogi.

Gunnhildur Ingvarsdóttir, bæjarfulltrúi og flokkssystir Stefáns í Framsóknarflokknum sem er í minnihluta í bæjarstjórn, vék ásamt Stefáni af fundi þegar bréf hans var tekið fyrir á miðvikudag. Gunnhildur er eigandi Dagskrárinnar. Áður en hún yfirgaf salinn sagðist hún vilja leiðrétta það að Dagskráin væri ekki fjölmiðill.

„Þessu mótmæli ég harðlega,“ sagði Gunnhildur sem kvaðst hafa flett orðinu fjölmiðli upp í Orðabók Háskóla Íslands. „Það er tæki til að dreifa upplýsingum til mikils mannfjölda á stóru svæði,“ vitnaði hún í orðabókina og benti á að Dagskráin kæmi út í sex þúsund eintökum og væri dreift frá Bakkafirði til Skaftafellssýslu.

„Ég held að það sé nokkuð augljóst að við reynum að auglýsa þar sem dreifingin er mest,“ sagði Þórður Már Þorsteinsson úr Á-lista.

Bæjarstjórnin samþykkti síðan að mælast til þess við bæjarstarfsmenn að nýta auglýsingar í staðbundnum fjölmiðlum, þegar það þætti vænlegt. „Taka verður þó tillit til þess að í tilfellum sveitarfélaga þarf að tryggja að slíkar auglýsingar komi fyrir sjónir sem flestra íbúa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×