Innlent

Nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll auglýst

Heimir Már Pétursson skrifar
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur kom saman til fundar í morgun til að taka fyrir deiliskipulagstillögu vegna Reykjavíkurflugvallar, sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi í síðustu viku.

Deiliskipulagið sem úrskuðrarnefndin felldi úr gildi var samþykkt í borgarstjórn hinn 1. apríl 2014, rétt undir lok síðasta kjörtímabils, en með því var minnsta flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli  tekin út af skipulagi.

Júlíus Vífill Ingvarsson situr í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokksinn og segir að fyrir fundi ráðsins í morgun hafi legið sams konar tillaga og felld hafi verið úr gildi en með breytingum.

„Um þetta var talsvert rætt og við bentu á að þarna væri mjög viðamikið mál til umfjöllunar og að enginn fulltrúi meirihlutans í ráðinu hafi fjallað um málið áður. Þekktu það ekki með sama hætti og nauðsynlegt er. Þarna voru 500 síður undir sem eru saga málsins. Engu að síður var málinu haldið áfram,“ segir Júlíus Vífill.

Minnihlutinn lagði hins vegar til að málið yrði skoðað betur og vandað til verka sem ekki hafi verið gert síðast þegar málið var til ákvörðunar. Málið sé flókið og margir angar á því.

„Til dæmis hefur Reykjavíkurborg stefnt innanríkisráðherra og krafist þess að norð-austur, suðvestur flugbrautinni verði lokað. Þessari svo kölluðu neyðarbraut. Það mál auðvitað fellur um sjálft sig ef deiliskipulag er ekki í gildi. Af því að raunverulega byggir sá málatilbúningur allur og sú málsókn á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvalar. Auk þess hangir Hlíðarendaskipulagið á þessu þannig að það eru gífurlega miklir hagsmunir undir,“ segir Júlíus Vífill.

Nú fari skipulagið í auglýsingaferli en venjulega taki ferlið um sex mánuði þótt meirihlutinn muni væntanlega reyna að flýta því.

„Það kemur nokkuð á óvart að borgarstjóri skuli halda því fram að þeir gallar sem voru á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvelli hafi verið minniháttar hnökrar og Reykjavíkurborg sé bara að leiðrétta þessa minniháttar hnökra.

Menn geri sér þá ekki grein fyrri alvarleika málsins því úrskurpanefndin fari ekki að fella úr gildi deiliskipulag af ástæðulausu.

„Síst af öllu deilskipulag sem hefur svona víðtækar afleiðingar nema á þessu deiliskipulagi hafi verið slíkir alvarlegir annmarkar en að nefndin hafi ekki séð sér annað fært en að fella það úr gildi,“ segir Júlíus Vífill.

Þannig að þú heldur að eftirmálum þessa alls sé ekki lokið?

„Alls ekki. Ég er alveg viss um það að þeir sem eiga hagsmuna að gæta munu standa áfram vörð um sína hagsmuni. Muni auðvitað leita réttar síns. Þetta er kannski stund milli stríða skulum við segja,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×