Emil Hallfreðsson missir af landsleik Íslands og Hollands í Amsterdam í undankeppni EM 2016 á fimmtudaginn vegna meiðsla.
Ólafur Ingi Skúlason hefur verið kallaður inn í hópinn í stað Emils sem fór meiddur af velli eftir 20 mínútur þegar Verona tapaði 2-0 fyrir Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.
Ólafur Ingi, sem hefur leikið 25 landsleiki, kemur til móts við íslenska hópinn í kvöld en hann leikur með Genclergirligi í Tyrklandi.
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði er einnig tæpur vegna meiðsla en óvíst er hvort hann geti spilað gegn Hollandi.
Leikurinn á fimmtudaginn er fjórði síðasti leikur Íslands í A-riðli en á sunnudaginn mæta íslensku strákarnir svo Kasakstan á Laugardalsvellinum.

