Menning

Nýjar raddir skálda

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Anna Valdís ætlar að vera kynnir á ljóðadagskránni í dag en hún yrkir og skrifar á nokkrum ólíkum tungumálum.
Anna Valdís ætlar að vera kynnir á ljóðadagskránni í dag en hún yrkir og skrifar á nokkrum ólíkum tungumálum. Vísir/Pjetur
„Ós er nýr félagsskapur skálda af ólíkum uppruna. Hann varð til úr ritlistarhópi sem starfaði í vetur á vegum Reykjavíkur, bókmenntaborgar UNESCO, undir handleiðslu Angelu Rowlings, kanadísks ljóðskálds sem býr hér á landi.“

Þetta segir Anna Valdís Kro, ein úr hópnum Ós sem heldur ljóðadagskrá á 4. hæð Lofts Hostels í dag klukkan 14 til 16.

Dagskráin kallast Plunderverse, Reading 101. Þar lesa tvær skáldkonur upp, þær Ewa Marcinek frá Póllandi sem hefur búið á Íslandi í tvö ár og hin bandaríska Randi Stebbins sem flutti til Íslands á síðasta ári. Auk þeirra kemur fram kanadíska skáldið Gregory Betts sem nú á leið um Reykjavík.

Dagskráin í dag er bara byrjunin á starfsemi Óss, að sögn Önnu Valdísar.

„Okkur dreymir um að gefa út tímarit með skrifum okkar, halda svona viðburði eins og í dag og leyfa röddum okkar að heyrast,“ segir hún. Sjálf skrifar hún ekki aðeins á íslensku heldur kveðst vera að prófa sig áfram með enskuna og jafnvel pólsku og búlgörsku líka, enda hafi tvær úr hópnum hjálpað henni með það.

Enn eru bara konur í Óshópnum en Anna Valdís segir formlegan stofnfund ekki hafa verið haldinn enn og fleiri geta bæst við. Hún hvetur sem flesta til að mæta í dag á Loft Hostel því auk þess að hlýða á upplestur gefist þar tækifæri til að spjalla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×