Innlent

Segjast einir ekki fá undanþágu til slátrunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Auðunn
Forsvarsmenn Síldar og fisks ehf., segjast vera eini svínræktandinn sem ekki fái undanþágu til slátrunar grísa. Undanþáguhópur Dýralæknafélags Íslands hafnaði í dag beiðni Matvælastofnunar um að fyrirtækið fengi að slátra alls 360 grísum á þremur dögum á búunum að Minni-Vatnsleysu og Þórustöðum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að enginn rökstuðningur hafi fylgt svarinu. Þó minnti Matvælastofnun í erindi til Síldar og fisks á að undanþáguhópurinn hafi sett það skilyrði fyrir undanþágu að umsókninni fylgdi skilyrði frá viðkomandi aðilum um að afurðir færu ekki á markað.

„Síld og fiskur ehf. sækir um undanþágu á sömu forsendum og aðrir svínaræktendur, þ.e. á grundvelli dýravelferðar með vísan í reglugerðarákvæði um rými í stíum,“ segir í tilkynningunni. „Grísirnir eru komnir í sláturstærð og stækka áfram dag frá degi. Velferð dýranna er stefnt í voða.“

Síld og fiskur hefur ekki skrifað undir samkomulag „sem Dýralæknafélagið og Bandalag háskólamanna neyddu bændur til að undirgangast“. Það fjallar um að þeir fengju að slátra grísum með sama skilyrði og hefur verið nefnt hér að ofan.

„Síld og fiskur er eini svínaræktandinn sem ekki fær undanþágu til slátrunar. Fyrirtækið lítur svo á að dýravelferð sé algild og að henni verði ekki vikið til hliðar vegna hagsmuna fólks í kjarabaráttu.“

Fyrirtækið hefur farið fram á við MAST að yfirdýralækni verði falið hlutverk kjötskoðunarlæknis, að aðrir dýralæknar verði fengnir til að gegna hlutverkinu. Annars beiti Matvælastofnun sér fyrir því að fá undanþágu Dýralæknafélagsins til að kalla starfsmenn stofnunarinnar úr verkfalli til að gegna hlutverkinu.

„Verkfall dýralækna hjá Matvælastofnun hefur nú staðið í liðlega þrjár vikur og ástandið á kjúklinga- og svínabúum versnar stöðugt. Stjórnvöld landsins hljóta að grípa inn í atburðarásina áður en hreint neyðarástand skapast eða ber svo að skilja að kjarabarátta víki dýravernd til hliðar þegar það hentar?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×