Innlent

Hænufet í rétta átt

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. skrifar
Ríkið hefur lagt fram óformlega sáttatillögu til BHM sem felur í sér svipaða hækkun og Starfsgreinasambandinu stendur til boða.

Formaður samninganefndar BHM segir að tilllagan sem ríkið lagði fram sé hænufet í rétta átt. Hann segir að verið sé að bjóða um það bil tólf prósenta hækkun á launataxta á þremur árum, sumsé svipaðar prósentuhækkanir og starfsgreinasambandinu standi til boða.

Það sé hinsvegar ekki verið að ræða skerðingu á yfirvinnu eða neitt slíkt. Tilboðið núna leysir ekki verkfallið eitt og sér. Páll Halldórsson segir að háskólamenn leggi mesta áherslu á stofnanasamninga en prósentuhækkanir leiki minna hlutverk í viðræðunum. Annar fundur er boðaður ídeilunni klukkan tvö á morgun.

Það er raunveruleg hætta á því að einhver hafi skaðast, muni skaðast eða jafnvel deyja í verkfallinu. Þetta kemur fram í bréfi læknanna Jakobs Jóhannssonar yfirmanns geislameðferðar á Landsspítalanum og Gunnars Bjarni Ragnarssonar yfirlæknis á krabbameinsdeild til landlæknis en hann sagðist í kjölfarið telja að setja ætti lög á verkfallið. Hann skilaði greinargerð um verkfallið til heilbrigðisráðherra í dag en hún verður rædd í ríkisstjórn á morgun.

Jakob sagði við Stöð 2 í kvöld að hann væri ekki að biðja um lagasetningu en það væri tímabært að tala tæpitungulaust. Gunnar Bjarni sagði að ástandið væri orðið mjög alvarlegt og í raun óviðunandi. Það væri í raun og veru mikil hætta á því að einhver myndi deyja vegna verkfallsins og menn eigi ekki að sætta sig við slíkt samfélag. Það væri búið að gjaldfella heilbrigðiskerfið í rúman mánuð og varla hægt að una við þetta lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×