Innlent

Margra daga vinna að hreinsa veginn til og frá Strákagöngum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vatnavöxtunum á Siglufirði í gær.
Frá vatnavöxtunum á Siglufirði í gær. mynd/andri freyr sveinsson
Samráðshópur sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, kallaði eftir að kæmi saman vegna mikilla vatnavaxta á Norðurlandi og Ströndum í vikunni kom saman í hádeginu í dag.

Fulltrúar frá forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, innanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti funduðu ásamt veðurstofustjóra, vegamálastjóra og forstjóra viðlagatryggingar.

„Málið kemur strax inn á borð viðlagatryggingar og það fóru þrír fulltrúar frá þeim norður strax í gær. Þetta snýst um að meta tjónið sem varð,“ segir Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar. Hann segir fundinn í hádeginu hafa snúist um að samræma viðbrögð þeirra sem að málinu koma.

„Þó að tjónið sé mikið þá er ljóst að það er engin bráðahætta. Það er svo stefnt á annan fund á mánudaginn þar sem staðan verður tekin aftur.“

Páll Kristjánsson, starfsmaður Vegagerðarinnar á Akureyri, segir ekki ljóst á þessari stundu hve mikið tjón stofnunarinnar sé í krónum talið vegna úrhellisins. Starfsmenn Vegagerðarinnar vinna nú hörðum höndum að því hreinsa veginn sitthvoru megin við Strákagöng.

„Þetta er margra daga vinna að hreinsa þetta upp. Það er alveg gríðarlegt magn af efnum sem hefur komið niður með þessu,“ segir Páll. Hann segist vonast til að hægt verði að opna vegina eftir helgi þó að ekki sé öruggt að það takist.

Þá bíði jafnframt feiknavinna starfsmannanna utan vega. Það geti því tekið meira en viku að koma vegunum í samt lag á ný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×