Innlent

Undirbúningur fyrir verkfallsaðgerðir langt kominn

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Undirbúningur fyrir verkfallsaðgerðir á fimmta þúsund ríkisstarfsmanna hjá SFR og Sjúkraliðafélagi Íslands er langt kominn. Verkfall þeirra hefst eftir rúma viku ef kjarasamningar nást ekki fyrir þann tíma. Samninganefndir félaganna og ríkisins hittast á fundi á morgun eftir vikuhlé.

Kjarasamningar sjúkraliða, SFR-félaga hjá ríkinu og lögreglumanna hafa verið lausir síðan í maí. Kjaradeila þeirra og ríkisins var komin á borð ríkissáttasemjara í júní en lítið hefur þokast í samkomulagsátt síðan þá. Sjúkraliðar og SFR-félagar hafa því boðað til verkfalls sem hefst um miðja næst viku ef ekki nást kjarasamningar fyrir þann tíma. Alls taka á fimmta þúsund ríkisstarfsmanna þátt í verkfallsaðgerðunum sem munu hafa hvað mest áhrif á Landspítalanum og hjá sýslumannsembættunum. Eftir vikuhlé hafa samninganefndirnar nú verið boðaðar aftur á fund í Karphúsinu.

„Það er búið að boða fund. Hann er á morgun klukkan tvö og þá höfum við að vísu ekki fundað síðastliðna viku,“ segir Árni Stefán Jónsson formaður SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu.

Árni vonast til að eitthvað nýtt komi fram á fundinum á morgun sem geti leitt til þess að nýjir samningar takist. „Ég bind töluverðar vonir við þennan fund, svona ég á von á því að við séum að setjast niður og virkilega fara að taka á þessu verkefni,“ segir Árni

Hann segir undirbúning fyrir verkfallsaðgerðirnar langt kominn. „Við erum svona nokkur veginn að verða tilbúin með hvernig við ætlum að fara í þetta allt saman. Svo að við munum vera alveg klár þegar kemur að verkfallinu með allt sem þarf að vera tilbúið,“ segir Árni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×