Innlent

Grunaður um kynferðisbrot gegn annarri fjórtán ára stúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Ingvari Dór frá því í júní kemur fram að hann hafi mælt sér mót við stúlkuna fjórtán ára og haft við hana samfarir meðal annars með hótunum um birtingu myndanna. Myndin er sviðsett.
Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Ingvari Dór frá því í júní kemur fram að hann hafi mælt sér mót við stúlkuna fjórtán ára og haft við hana samfarir meðal annars með hótunum um birtingu myndanna. Myndin er sviðsett. Vísir/Getty
Ingvar Dór Birgisson, þrítugur karlmaður sem dæmdur var í þriggja og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti á fimmtudag fyrir að hafa meðal annars nauðgað fjórtán ára stúlku árið 2010, er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn annarri fjórtán ára stúlku í fyrra. Aftur á hann að hafa sett sig í samband við stúlkuna í gegnum netið og fengið hana til að senda sér nektarmyndir af sjálfri sér.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Ingvari Dór frá því í júní kemur fram að hann hafi mælt sér mót við stúlkuna fjórtán ára og haft við hana samfarir meðal annars með hótunum um birtingu myndanna. Meint brot á að hafa átt sér stað snemma á árinu 2014. Ingvar Dór hefur dvalið mikið erlendis undanfarin ár en var boðaður í skýrslutöku við komu til landsins þann 4. desember 2014. Neitaði hann þeim ásökunum sem á hann voru bornar og komst lögregla að því að hann ætlaði aftur af landi brott viku síðar, 11. desember.

Chastity Rose Dawson Gísladóttir var fórnarlambið í málinu sem Ingvar Dór hlaut dóm í á fimmtudaginn.
Yfirgaf Ísland þrátt fyrir kröfu um farbann

Í ljósi þess að Ingvar Dór gaf ekki upp hvað hann fengist við erlendis og ferð hans var sögð til ótiltekins tíma var farið fram á farbann yfir honum. Þann 11. desember, þegar átti að taka fyrir kröfuna um farbann, kom í ljós að Ingvar Dór hafði haldið af landi brott fyrr um daginn. Þá var gefin út handtökuskipun á hendur honum og hann handtekinn við komuna til Hollands. Farið var fram á að Ingvar yrði framseldur til Íslands og fékkst loks samþykki fyrir því hjá hollenskum dómstólum í júní. Var hann fluttur til landsins 16.  júní.

Í ljósi þess að Ingvar Dór hafði yfirgefið landið þrátt fyrir að fyrir lægi beiðni um farbann var farið fram á að hann yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Féllust bæði héraðsdómur og Hæstiréttur á þá beiðni og úrskurðuðu hann í gæsluvarðhald til 23. október eða þar til dómur félli í hinu kynferðisbrotamálinu á hendur honum. Sá dómur féll svo í gær.

Rannsókn lögreglu er lokið og verður málið nú sent til ríkissaksóknara. Þar verður tekin endanlega ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu.

Ingvar Dór flúði til Cayman-eyja áður en kynferðisbrotamálið sem hann var dæmdur fyrir á fimmtudaginn var þingfest.Vísir/Getty
Flúði til Cayman-eyja

Ingvar Dór var sem fyrr segir dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot í Hæstarétti á fimmtudag. Brotin áttu sér stað í ársbyrjun árið 2010 og var gefin út ákæra í málinu í maí 2012. Erfiðlega gekk að birta Ingvari Dór ákæruna en það tókst loks í lok júní. Við þingfestingu málsins þann 9. júlí 2012 var hann hins vegar farinn af landi brott til Cayman-eyja.

Dómur féll í héraði í september 2013 þar sem Ingvar Dór var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi. Hæstiréttur sendi hins vegar málið aftur í hérað. Ástæðan var að Hæstiréttur taldi að verulegir annmarkar hefðu verið á rannsókn málsins og héraðsdómur hefði ekki lagt mat á öll þau sönnunargögn sem færð hefðu verið fram.

Málið var því tekið aftur fyrir og féll dómur, jafnlangur, í ársbyrjun 2015. Hæstiréttur staðfesti þann dóm í síðustu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×