Viðskipti innlent

Nótt Thorberg framkvæmdastjóri Marel á Íslandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nótt Thorberg.
Nótt Thorberg.
Nótt Thorberg hefur tekið við nýju starfi framkvæmdastjóra Marel á Íslandi. Framkvæmdastjórinn verður ábyrgur fyrir starfsemi Marel á Íslandi þegar kemur að innleiðingu á stefnu og rekstrarmarkmiðum í samstarfi við iðnað og alþjóðleg stoðsvið félagsins, að því er fram kemur í tilkynningu.

Nótt hefur undanfarna níu mánuði verið í fæðingarorlofi en frá árinu 2012 hafði hún starfað sem markaðsstjóri Marel á Íslandi með áherslu á ímynd og markaðsstarf félagsins hér á landi. Nótt er formaður Stjórnvísis, situr í stjórn Íslensku ánægjuvogarinnar og er á meðal stofnenda félagsins Konur í sjávarútvegi. Hún útskrifaðist með M.Sc. gráðu í markaðsmálum frá the University of Strathclyde í Skotlandi árið 2009 og hefur lokið tveimur diplómagráðum á vegum the Chartered Institute of Marketing.

„Marel er í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar þróun hátæknibúnaðar og kerfa til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi.  Félagið er með starfsstöðvar í 30 löndum um heim allan og eru starfsmenn um 4.600. Á Íslandi starfa um 550 manns við nýsköpun, framleiðslu, sölu og þjónustu. Marel er skráð á Nasdaq OMX hlutabréfamarkaðinn á Íslandi og eru höfuðstöðvar félagsins hér á landi ásamt því að hluti yfirstjórnar og alþjóðlegra stoðsviða félagsins eru hér á landi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

 

„Hjá Marel á Íslandi starfar samhentur og fjölbreyttur hópur fólks sem leggur metnað í störf sín alla daga. Ég hlakka til að  fóstra starfsstöðina á Íslandi með stefnu Marel og hagsmunaaðila að leiðarljósi,“ er haft eftir Nótt í tilkynningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×