Erlent

Norðmaður slapp með skrekkinn eftir svifdrekaslys

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Norðmaðurinn Jon Gjerde slapp svo sannarlega með skrekkinn í liðinni viku þegar hann lenti í því að festing í svifdreka hans gaf sig með þeim afleiðingum að hann hrapaði til jarðar.

Slysið átti sér stað á svifíþróttasýningunni Extreme Voss skammt frá Bergen. Gjerde var að leika listir sínar í loftinu með fyrrgreindum afleiðingum. Fjöldi áhorfenda var á staðnum og fylgdist með því sem fram fór.

„Ég tapaði allri sjón og þurfti að berjast af öllum mætti til að láta ekki í minni pokann fyrir miðflóttaaflinu,“ skrifar Gjerde á Facebook-síðu sína. Krafturinn var slíkur að litlu munaði að hann myndi missa meðvitund.

Áður en það var of seint náði hann að opna neyðarfallhlíf sína og svífa til jarðar. För hans endaði í vatni og var hann umsvifalaust fluttur á sjúkra hús. Þar kom í ljós að hann hafði hlotið miklar bólgur í andliti og mar víða. Mynd sem sýnir andlit hans eftir þetta má sjá inn á norska fréttavefnum Bergen Avisen.

Hér fyrir neðan má sjá tvö myndbönd sem sýna slysið frá tveimur sjónarhornum. Annað þeirra er úr svifdrekanum sjálfum en hitt frá áhorfanda á jörðu niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×